Ég elska fátt meira en góða snúða og oftar en ekki eyði ég helginni í að finna upp nýjar og spennandi leiðir í snúðagerð.
Ég hef lengi ætlað að fullkomna klístraða snúða, eða „sticky buns“. Það er svo sem ekki flókið að búa til klístraða snúða en hingað til hef ég ekki verið nógu ánægð með karamelluna í botninum.
Nú er ég hins vegar búin að mastera þetta með æðislegri karamellu og pekanhnetum, en hneturnar gjörsamlega breyttu snúðaleiknum fyrir mér!
Ég leyfi deiginu að hefast talsvert lengur en ég geri vanalega, eða alveg í tvo klukkutíma, jafnvel þrjá. Útkoman eru dúnmjúkir snúðar, löðrand í geggjaðri karamellu og gleði.
Mæli með – þessir eru dúndur!
Ekta, klístraðir snúðar
|
|
Hráefni
Deig
- 1/2bolli volgt vatn
- 1bréf þurrger(ca 1 1/2 msk)
- 1/2bolli sykur
- 1/2 bolli mjólk
- 50g smjör
- 2 stór egg(þeytt)
- 1 1/2tsk sjávarsalt
- 4 1/2bolli hveiti
Karamella
- 1bolli púðursykur
- 1tsk kanill
- 115g smjör
- 1/3bolli hlynsíróp
- 1msk vanillusykur
- 1tsk sjávarsalt
- 1-2bollar saxaðar pekanhnetur
Fylling
- 3-4msk smjör(brætt)
- 2/3bolli púðursykur
- 1-2msk kanill
Leiðbeiningar
Deig
- Blandið volgu vatni saman við þurrger og helminginn af sykrinum. Setjið til hliðar og leyfið gerinu að blómstra.
- Hitið mjólk að suðu og blandið henni saman við smjör og restina af sykrinum. Hærið þar til blandan hefur kólnað lítið eitt.
- Blandið gerblöndunni og mjólkurblöndunni vel saman og bætið síðan eggjum og salti saman við.
- Blandið hveitinu saman við smátt og smátt þar til það er ekki mjög klístrað lengur.
- Látið hreint viskastykki yfir skálina og leyfið deiginu að hefast í um 2 klukkustundir.
Karamella
- Setjið púðursykur, kanil, smjör og hlynsíróp saman í pott yfir meðalhita.
- Hrærið við og við í blöndunni og hafið á hitanum þar til smjör og sykur hafi bráðnað.
- Takið af hellunni og blandið vanillusykri og salti saman við. Takið til eldfast mót, ágætlega stórt, og smyrjið mótið vel. Hellið karamellunni í botninn og dreifið pekanhnetum yfir karamelluna.
Fylling
- Hitið ofninn í 175°C. Þegar að deigið hefur hefast þá er það flatt út, penslað með smjöri og púðursykri og kanil stráð yfir smjörið.
- Síðan er deiginu rúllað upp og skorið í jafnstóra bita. Bitunum er raðað yfir karamelluna og pekanhneturnar í eldfasta mótinu.
- Snúðarnir eru bakaðir í 30-35 mínútur, leyft að kólna aðeins og síðan má gúffa þeim í sig!