Ég veit fátt betra í veröldinni en kúlur frá Góu, þið vitið þessar gömlu, góðu. Ég hef lengi verið að spá í að gera bollakökur til að heiðra þessar unaðslegu kúlur, en líka fyrir mína bestustu vinkonu, hana Evu.

Sjáiði til, ég og Eva eigum nefnilega ofboðslega lítið sameiginlegt. Ég held að þið gætuð örugglega ekki fundið ólíkari vinkonur en okkur tvær. Hún er hot shot líffræðingur sem rannsakar lífríki sjávar – ég er leikkona og blaðamaður. Ef valið stæði á milli að fara í gönguskó eða hæla myndi hún alltaf velja fyrri kostinn og ég þann seinni. Hún elskar pasta – mér finnst það ekkert spes. Hún nýtur þess að búa í einangruninni á Vestfjörðum allan ársins hring á meðan ég gæti ekki verið meira borgarbarn. En það eru meðal annars Góu kúlur sem sameina okkur – og þess vegna eru þessar bollakökur fyrir Evu.

Við Eva kynntumst í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti, strax í fyrsta tíma á fyrstu önn. Saklausu busarnir náðu vel saman strax og þá var ekki aftur snúið. Og suma daga vorum við bara ekki í stuði fyrir annað fólk því okkur fannst við svo fáránlega skemmtilegar og frábærar. Þannig að við stungum af úr skólanum, birgðum okkur upp af Góu kúlum og fórum heim að spila tölvuleiki. Og ég held að ég geti með fullvissu sagt að ef einhver hefði horft á okkur skófla þessum kúlum upp í okkur eins og við ættum lífið að leysa hefði sá hinn sami kúgast og hlaupið út grátandi.

Þannig að ég hugsa alltaf um Evu þegar ég fæ mér kúlur. Og bölva henni smá fyrir að búa úti á landi. En þegar maður á svona sanna og góða vini eins og Evu þá er allt í lagi að vera í sundur. Senda kannski bara einn og einn broskall á Facebook og pústa svo klukkutímum saman þess á milli. Vináttan er ekki að fara neitt.

Þessi er fyrir þig Eva!


Bollakökur með kremi úr Góu kúlum
Hráefni
Kúlusósa
Bollakökur
Leiðbeiningar
Kúlusósa
  1. Setjið kúlur og rjóma í pott og bræðið yfir vægum hita. Fylgist vel með blöndunni og hrærið reglulega í henni. Hellið henni síðan í skál eða krukku og leyfið henni að kólna.
Bollakökur
  1. Hitið ofninn í 170°C og takið til múffuform. Bræðið hvíta súkkulaðið í örbylgjuofni í 30 sekúndur í senn og munið að hræra alltaf í því eftir hverjar 30 sekúndur. Leyfið þessu að kólna aðeins.
  2. Setjið smjör og sykur í skál og þeytið í 3-5 mínútur. Blandið salti og vanilludropum saman við.
  3. Bætið eggjunum saman við, einu í einu og hrærið vel. Sigtið hveiti og lyftiduft og blandið út í og hrærið vel.
  4. Bætið síðan hvíta súkkulaðinu og mjólkinni saman við og hrærið. Deilið á milli formanna og bakið í 20-23 mínútur. Leyfið kökunum að kólna áður en kremið er sett á.
Krem
  1. Þeytið smjörið í 3-5 mínútur og bætið síðan restinni af hráefnunum saman við. Ég notaði rúmlega helming af Góu sósunni í kremið en smakkaði það til reglulega.
  2. Skreytið kökurnar með kreminu og hellið smá kúlusósu yfir. Og já, ég veit að það er massa stílbrot að skreyta með Siríus súkkulaði, en karamellutýpan er bara svo góð!

Umsagnir

Umsagnir