Ég elska pítsu. Elska, elska, elska. Því hef ég eytt ófáum stundum í eldhúsinu í að reyna að fullkomna pítsudeigið mitt því auðvitað er heimagert alltaf best.

Loksins er komið að því að ég get deilt minni uppskrift að pítsudeigi og fullvissað ykkur um að það er það besta í heimi – að mínu mati allavega. Það er náttúrulega fáránlegt að maður sé yfir höfuð að panta pítsu því það tekur svipaðan tíma að búa flatbökuna til sjálfur og að bíða eftir henni á pítsustaðnum. En, nóg um það!

Þessi uppskrift er mjög einföld og inniheldur hráefni sem eru til á mörgum heimilum. Deigið þarf ekki að hefast lengi, eiginlega bara á meðan ofninn hitnar, og botninn verður dúnmjúkur og kantarnir stökkir – alveg eins og ég vil það. Svo bý ég sjálf til pítsusósuna úr tómatpúrru, vatni, hvítlauk og kryddi – það er sko algjört dúndur!

Ég ætla ekkert að flækja þetta meira og segi bara: Gleðilega pítsuhelgi!


Besta pítsudeig í heimi
Hráefni
Leiðbeiningar
  1. Byrjið á því að hita ofninn í 200°C og taka til tvær ofnplötur, eða pítsugrindur. Ef þið notið plötur þá klæðið þið þær með smjörpappír.
  2. Blandið vatni, geri og sykri saman í skál og leyfið þessu að bíða í 5-8 mínútur, eða þar til blandan byrjar að freyða.
  3. Blandið þá salti, ólífuolíu og 4 bollum af hveiti saman við og vinnið vel saman. Bætið síðan hveiti saman við þar til deigið er hætt að vera klístrað. Það á í raun að vera þannig eftir nokkuð hnoð að ef maður ýtir í það með puttanum að það jafni sig aftur eftir smá stund.
  4. Skiptið deiginu í tvo hluta og búið til kúlur úr þeim. Setjið þær á hreinan borðflöt, setjið hreint viskastykki yfir og leyfið þeim að hefast í 10 til 15 mínútur. Á meðan getið þið skorið niður álegg og þess háttar. ATHUGIÐ: Mér finnst gott að blanda saman söxuðum hvítlauk og ólífuolíu á meðan deigið hefast og pensla síðan kantana með olíunni þegar ég er búin að setja áleggið á.
  5. Fletjið síðan deigið út og setjið álegg á (og penslið kantana með olíu eins og ég - það er geggjað!). Setjið pítsurnar síðan inn í ofn þangað til osturinn og kantarnir eru farnir að brúnast, eða í um 10 til 15 mínútur. Njótið!

Umsagnir

Umsagnir