Þessi færsla er unnin í samstarfi við Partývörur, Exton og Nesbú-egg.
Hún Anna mín litla Alexía, sem oft er kölluð Litla Brjál, fagnaði loksins fimm ára afmæli þann 22. júní síðastliðinn. Það er ekki ofsögum sagt að hún hafi verið búin að bíða eftir þessum degi í heilt ár og því var tilhlökkunin í algleymingi!
Litla stóra Anna mín er með einstaklega fallegan haus og huga og stundum stend ég á gati yfir hlutunum sem henni dettur í hug. Hún er svo frjó og hugmyndarík að ég á ekki roð í hana!
Þess vegna var það mikil áskorun að útbúa eitt stykki afmælisveislu eftir hennar höfði. Anna kærði sig ekkert um að halda sig innan eins, ákveðins þema. Ó, nei – hún Anna mín vill nota alla litina í pennaveskinu og fara vel út fyrir boxið í öllu sem hún tekur sér fyrir hendur. Við ákváðum því að nota alla litina, nota regnboga og einhyrninga, hafmeyjur, glimmer, gleði og popp.
Úr varð án efa litríkasta afmæli sem ég hef haldið fyrir börnin mín. Anna var líka minn harðasti húsbóndi og fékk hugmyndir á færibandi, svo margar að ég þurfti að stoppa hana af kvöldið fyrir afmælisveisluna þegar ég var komin með smjörkrem á milli tánna þegar hún sagði allt í einu, upp úr þurru:
„Mamma, ég vil fá köku sem er eins og sjórinn við sólarlag!“
Ég gat ekki annað en sprungið úr hlátri. Það eina sem ég gat sagt var: „Þú ert einstök.“ Svo knúsaði ég hana og reyndi að útskýra fyrir henni að við værum með Rice Krispies-stjörnur, skeljar úr smákökum, hafmeyju bollakökur, regnboga bollakökur, 5 hæða tertu, heimagert regnbogahlaup, glimmer marengs, einhyrningapopp og Lucky Charms-ostaköku. Ég bara hefði einfaldlega ekki tíma til að baka meira, enda gestirnir væntanlegir eftir innan við sólarhring. Sem betur fer skildi Anna þetta allt fullkomlega og fór sátt og sæl að sofa.
Ég hins vegar náði ekki almennilega að festa svefn. Ég var svo stressuð að bregðast barninu með allar sínar þúsund og eina hugmynd. Fannst ég ekki hafa gert nóg. Ég var alvarlega að íhuga það að rísa úr rekkju um miðja nótt og reyna að búa til köku sem er eins og sjórinn við sólarlag! Loksins náði ég hins vegar að róa hugann og leyfa framtíðar Lilju að kljást við þetta óöryggi daginn eftir.
Rétt eftir hádegi byrjaði ég síðan að týna allt til á veisluborðið. Brosið á andliti Önnu minnar varð stærra og stærra. Hún var svo glöð með alla litadýrðina. Allt dásamlega kitsj bakkelsið. Allt stuðið. Allt glimmerið. Hún hafði gert sér ferð í Partývörur í Garðabæ og valið sér alls konar skemmtilegheit fyrir afmælið og það var unun að fylgjast með henni raða því upp og sjá hana skipuleggja litasprengju inni í stofu.
Ekki skemmdi að við fengum hoppukastala lánaðan hjá Exton fyrir afmælið og ég mæli hiklaust með því! Við vorum einstaklega heppin með veður og þegar að gestirnir mættu á staðinn fóru krakkarnir nánast undantekningalaust út í kastalann og komu rétt svo inn til að borða. Það gaf því foreldrunum smá næði til að drekka kaffi og spjalla.
Hér fyrir neðan er ég búin að safna saman helstu uppskriftunum úr afmælinu og vona að litríkar myndirnar veiti ykkur smá gleði. Ég læt uppskriftirnar að marengsinum ekki fylgja með, þar sem ég hef svo oft birt marengsuppskriftir. Í báða marengsa notaði ég hefðbundna uppskrift að marengs. Annan fyllti ég með lemon curd og karamellukurli – hinn með karamellusósu og Nóa Kroppi.
Nú er bara að bíða eftir sex ára afmælinu en Anna er nú þegar byrjuð að plana það! Guð hjálpi mér!
|
|
- 700g mjúkur rjómaostur
- 3 bollar flórsykur
- 1peli rjómi(þeyttur)
- 1tsk vanilludropar
- 4-6 kókosbollur
- 10-12 súkkulaðikex með kremi
- bláber
- nóakropp(ég húðaði mitt með rose gold dufti sem ég keypti í Krónunni)
- 3bollar Lucky Charms-morgunkorn(ekki sykurpúðarnir - geymið þá til að skreyta með)
- 3msk smjör(brætt)
- 450 g mjúkur rjómaostur
- 1/2bolli sykur
- 100g gult súkkulaði(brætt - má nota hvítt súkkulaði)
- 1/2tsk vanilludropar
- 1/2tsk salt
- 1msk hveiti
- 2 Nesbú-egg
- 1/2bolli hvítt súkkulaði
- 1msk rjómi
- 500g Sykurpúðar
- 5msk smjör
- 5 1/2bolli Rice Krispies
- 1bolli kökuskraut
- 1 bolli vanillumjólk
- 1bolli Lucky Charms-morgunkorn(nú mega sykurpúðarnir vera með)
- 4stór Nesbú-egg
- 2bollar sykur
- 2bollar hveiti
- 2tsk lyftiduft
- 1/2tsk sjávarsalt
- 1bolli nýmjólk
- 8msk smjör
- 1msk vanilludropar
- 200g mjúkt smjör
- 400g flórsykur
- 75g hvítt súkkulaði(brætt)
- 1tsk vanilludropar
- 1/4bolli Lucky Charms-mjólk(sjá í leiðbeiningum við Lucky Charms-köku)
- 1bolli hveiti
- 1bolli sykur
- 1/2bolli kakó
- 1tsk lyftiduft
- 1/2tsk matarsódi
- 1/2tsk sjávarsalt
- 1tsk instant kaffi
- 1/2bolli nýmjólk
- 1/4bolli olía
- 1 Nesbú-egg
- 1/2tsk vanilludropar
- 1/4-1/2bolli sjóðandi vatn
- sykurpúðar og regnbogahlaup til að skreyta með
- 100g mjúkt smjör
- 180g sykur
- 2 Nesbú-egg
- 180 g hveiti
- 1tsk matarsódi
- 2tsk vanilludropar
- múskat á hnífsoddi
- 2 maukaðir bananar
- 100g sýrður rjómi
- 320g mjúkt smjör
- 480g flórsykur
- 2tsk vanilludropar
- 12msk hlynsíróp
- 3bollar hveiti
- 2tsk lyftiduft
- 225g kalt smjör(skorið í bita)
- 1bolli sykur
- 1 Nesbú-egg
- 1tsk vanilludropar
- smjörkrem að eigin vali (sjá til dæmis hér fyrir ofan)
- Ætar perlur - kökuskraut
- 37g matarlím
- 1bolli kalt vatn
- 1 1/2bolli sjóðandi heitt vatn
- 4bollar sykur
- 1/2tsk bragðefni(til dæmis sítrónudropar)
- matarlitur
- sykur
- poppkorn(passið að hafa engar baunir með)
- bleikt matarsprey(fæst í Allt í köku)
- blátt súkkulaði(brætt)
- gult súkkulaði(brætt)
- kökuskraut í öllum regnboganslitum
- Þeytið rjómaostinn vel og vandlega og bætið síðan flórsykrinum saman við. Bætið vanilludropunum út í og blandið síðan rjómanum varlega saman við með sleif eða sleikju.
- Myljið súkkulaðikexin vel og setjið rúmlega helminginn af þeim í botn á ágætlega stórri skál.
- Skellið 1/3 af ostakökublöndunni ofan á mulninginn. Raðið kókosbollum ofan á og hellið 1/3 af ostakökublöndunni yfir sem og restinni af kexinu.
- Hellið restinni af ostakökublöndunni yfir kexið og skreytið með Nóa Kroppi og bláberjum.
- Hitið ofninn í 175°C og smyrjið hringlaga form, sirka 18 sentímetra stórt.
- Myljið morgunkornið og blandið því saman við smjörið. Þrýstið blöndunni í botninn á forminu og bakið í 10-12 mínútur.
- Blandið rjómaosti og sykri vel saman og bætið síðan gula súkkulaðinu saman við. Blandið síðan hveiti, salti og vanilludropum vel saman við.
- Blandið eggjunum saman við einu í einu þar til allt er vel blandað saman. Hellið blöndunni yfir botninn og bakið í um 40 mínútur.
- Leyfið kökunni að kólna í forminu við stofuhita í um 2 tíma og síðan inni í ísskáp í nokkrar klukkustundir, jafnvel yfir nótt.
- Takið kökuna varlega úr forminu. Setjið rjóma og hvítt súkkulaði í skál sem þolir örbylgjuofn og hitið í 30 sekúndur í senn þar til allt er bráðnað. Munið að hræra í blöndunni á 30 sekúndna fresti.
- Hellið súkkulaðiblöndunni yfir kökuna og skreytið með Lucky Charms-sykurpúðum.
- Smyrjið ílangt form, sirka 33 sentímetrar að lengd. Gott er að setja einn smjörpappír í botninn og láta hann ná upp á hliðarnar.
- Takið til stóran pott og bræðið smjör og sykurpúða saman yfir meðalhita. Þegar allt er bráðnað er potturinn tekinn af hellunni og Rice Krispies hrært saman við.
- Loks er kökuskrautinu hrært saman við og blöndunni þrýst í formið. Hér er gott að hafa rakar hendur svo blandan klístrist ekki eins mikið við mann.
- Síðan er forminu skellt inn í ísskáp og þetta látið harðna. Einfalda leiðin er síðan bara að skera herlegheitin í bita en ég tók mér stjörnuform í hönd og skar út stjörnur sem ég þrýsti síðan röri í gegnum svo þetta líktist sleikjó.
- Setjið vanillumjólk og Lucky Charms í box sem er hægt að loka og leyfið þessu að liggja saman inni í ísskáp í að minnsta kosti hálftíma.
- Hitið ofninn í 175°C og klæðið tvö hringlaga form, sirka 18 sentímetra stór, með smjörpappír.
- Byrjið á því að þeyta eggin vel þar til þau þeyta. Hellið síðan sykrinum varlega saman við í mjórri bunu og þeytið þar til blandan minnir á búðing, eða í um 5 til 7 mínútur.
- Blandið síðan hveiti, lyftidufti og sjávarsalti vel saman við.
- Setjið mjólk og smjör í skál sem þolir örbylgjuofn og hitið þar til smjörið er bráðnað.
- Nú þarf að eins að tempra þannig að sirka einn bolli af deiginu er hrærður saman við heita mjólkina. Síðan er því hellt saman við restina af deiginu og hrært vel saman. Að lokum er vanilludropum blandað saman við.
- Deilið deiginu á milli formanna tveggja og bakið í tuttugu mínútur. Lækkið síðan hitann í 160°C og bakið í tíu mínútur til viðbótar, en fylgist vel með botnunum svo þeir brenni ekki.
- Leyfið botnunum að kólna. Áður en þið skreytið botnana þá takið þið Lucky Charms-mjólkina úr ísskápnum og penslið botnana með henni - eins mikið eða lítið og þið viljið.
- Þeytið smjörið í 5-6 mínútur og bætið síðan flórsykri, súkkulaði og vanilludropum saman við.
- Bætið Lucky Charms-mjólkinni smátt og smátt saman við og skreytið síðan kökuna með ást og umhyggju.
- Hitið ofninn í 160°C og takið til möffinsform - ca 12-16 stykki.
- Byrjið á því að sjóða vatnið - það verður nefnilega að vera sjóðandi heitt þegar því er bætt út í deigið.
- Blandið hveiti, sykri, kakói, lyftidufti, matarsóda, salti og instant kaffi vel saman í skál.
- Bætið mjólk, olíu, eggi og vanilludropum saman við og hrærið vel saman - hér er mjög gott að nota handþeytara svo kökurnar lyftist vel og verði dúnmjúkar.
- Hafið þeytarann á lægsta styrk og hellið sjóðandi heita vatninu varlega saman við þar til deigið er orðið hæfilega þykkt. Það á ekki að vera svo þunnt að það leki út um allt heldur verða örlítið stíft og massívt.
- Deilið deiginu í formin og bakið í 14-16 mínútur. Leyfið kökunum að kólna áður en þið setjið kremið á. Síðan klippti ég niður regnbogalengjuhlaup og bjó til regnboga úr því. Sykurpúðarnir eru skýin.
- Hitið ofninn í 180 °C. Hrærið saman smjör og sykur í 4-5 mín.
- Bætið eggjum út í, fyrst öðru og svo hinu, og hrærið vel saman. Sigtið hveiti og matarsóda saman og bætið út í deigið.
- Blandið vanilludropum, múskati, banönum og sýrðum rjóma út í og hrærið vel saman.
- Setjið pappírsform ofan í múffubakka og skiptið deiginu á milli formanna. Bakið í 20-25 mín. Kælið kökurnar áður en krem er sett á. Ég skreytti þessar með hafmeyjukökum, en uppskrift að þeim er sú sama og ég notaði fyrir skeljakökurnar sem þið sjáið hér fyrir neðan kremuppskriftina.
- Þeytið smjörið vel. Hrærið síðan allt saman sem fer í kremið. Notið matarliti að eigin vali, eða sleppið því, og skreytið að vild.
- Hitið ofninn í 180°C og setjið smjörpappír á ofnplötur.
- Blandið hveiti og lyftidufti saman í meðalstórri skál. Setjið til hliðar.
- Þeytið smjör og sykur vel saman þar til blandan er létt og ljós. Blandið eggi og vanilludropum vel saman við.
- Blandið hveitinu saman við smátt og smátt og hnoðið loks deigið vel þar til allt er blandað saman og deigið slétt og fellt.
- Þetta deig má fletja út strax, skera út og baka en það má vel geyma það í ísskáp ef á að fletja það út síðar.
- En sem sagt, deigið er flatt út og skorin út þau form sem hver vill. Kökunum er raðað á ofnplöturnar og bakaðar í 9 til 12 mínútur. Síðan eru þær látnar kólna.
- Ég dustaði gull dufti á skeljarnar áður en ég sprautaði smjörkremi á aðra hliðina, setti perlu í miðjuna og festi svo hinn helminginn á þannig að perlan sæist. Með hafmeyjurnar þá notaði ég hefðbundinn glassúr, eggjahvítu og flórsykur, og skreytti í alls kyns litum.
- Takið til form sem þið ætlið að nota. Ég geri yfirleitt eina uppskrift í stórt, ílangt form sem er um 33 sentimetra langt. Ef þið viljið nota nokkur minni form fyrir mismunandi bragð, þá mæli ég með því að þið hafið aðstoðarhlaupara þar sem maður þarf að hafa hraðar hendur þegar blandan er tilbúin. Svo er auðvitað líka hægt að nota konfektform. Úðið bökunarspreyi í formið/n.
- Takið til vel stóran pott og leggið matarlímsblöðin í hann. Gott er að brjóta þau upp.
- Hellið kalda vatninu yfir matarlímið og leyfið þessu að liggja í fimm mínútur. Á meðan sjóðið þið vatnið og hellið því síðan yfir matarlímið. Hrærið vel þar til matarlímið er uppleyst. Blandið sykrinum saman við og hrærið vel.
- Setjið pottinn á hellu yfir meðalháan hita. Hrærið stanslaust og náið upp suðu.
- Lækkið þá hitann eilítið og leyfið þessu að malla í 25 mínútur á meðan þið hrærið stanslaust.
- Takið pottinn af hellunni og blandið bragðefni og matarlit saman við. Munið hraðar hendur! Hellið blöndunni í formið/n og kælið í ísskáp í 8 klukkutíma.
- Takið hlaupið úr forminu og skerið í litla bita. Veltið þeim upp úr sykri og raðið á smjörpappír. Setjið síðan aftur inn í ísskáp yfir nótt og þá er hlaupið tilbúið. Reynið að standast þetta!
- Raðið poppinu á stóran borðflöt eða smjörpappírsklæddar plötur. Munið - engar baunir!
- Spreyið poppið með matarspreyinu og drissið síðan súkkulaðinu yfir, eins miklu eða litlu og þið viljið.
- Hellið síðan kökuskrauti yfir herlegheitin og leyfið þessu að storkna. Brjótið upp og setjið í skálar.