Mig vantaði góðan skammt af hugleiðslu og rólegheitum á aðventunni og ákvað að skella mér inn í eldhús og leyfa ímyndunaraflinu að fá smá útrás. Þannig fæddist jólakaka Blaka árið 2021.

Hún öskrar á jólin og er afar gómsæt á bragðið, þó ég segi sjálf frá. Auðvitað er dásamlegt að baka þessar hefðbundnu smákökusortir um jólin, en það er líka algjörlega sálarbætandi að leika sér aðeins í eldhúsinu þess á milli – það er að segja ef maður fílar það yfir höfuð að baka!

Ég hvet ykkur til að baka kökur og finna nýjar og skemmtilegar leiðir til að skreyta þær. Ég mæli sérstaklega með að fá krakka með ykkur í lið í skreytingarmaníunni því ímyndunaraflið þeirra er enn þá ósnortið og þeir finna svo geggjaðar leiðir sem við fullorðna fólkið gætum aldrei látið okkur detta í hug.

Munum líka að bakstur er rosalega góð samverustund fjölskyldunnar. Þetta þarf ekki að vera fullkomið – þetta þarf bara að vera gaman. Ef eitthvað mistekst, brennur við, fellur saman eða hrynur eigið þið allavega frábæra sögu til að hlæja yfir. Og viti menn – skemmtilegustu lausnirnar leynast mjög oft í mistökunum. Ef það vex ykkur í augum að baka köku frá grunni þá mæli ég með að kaupa tilbúna botna eða leyfa Betty frænku að leiða ykkur áfram – hún klikkar aldrei!

Njótið samverunnar, njótið smjörkremsvímunnar, bara njótið.


Jólakaka Blaka árið 2021
Hráefni
Kökubotnar
Jarðarberjasósa
Hlynsírópskrem
Mömmukökur
Glassúr
Leiðbeiningar
Kökubotnar
 1. Hitið ofninn í 175°C og klæðið þrjú hringlaga form, sirka 18 sentímetra stór, með smjörpappír.
 2. Byrjið á því að þeyta eggin vel þar til þau freyða. Hellið síðan sykrinum varlega saman við í mjórri bunu og þeytið þar til blandan minnir á búðing, eða í um 5 til 7 mínútur. Blandið síðan hveiti, lyftidufti og sjávarsalti vel saman við.
 3. Setjið mjólk og smjör í skál sem þolir örbylgjuofn og hitið þar til smjörið er bráðnað. Nú þarf að eins að tempra þannig að sirka einn bolli af deiginu er hrærður saman við heita mjólkina. Síðan er því hellt saman við restina af deiginu og hrært vel saman. Að lokum er vanilludropum blandað saman við.
 4. Deilið deiginu á milli formanna tveggja og bakið í tuttugu mínútur. Lækkið síðan hitann í 160°C og bakið í tíu mínútur til viðbótar, en fylgist vel með botnunum svo þeir brenni ekki. Leyfið botnunum að kólna áður en sósan og kremið er sett á.
Jarðarberjasósa
 1. Takið til lítinn pott og setjið botnfylli af vatni í hann. Setjið öll hráefni í pottinn og látið malla yfir meðalhita í 10 til 15 mínútur. Hrærið reglulega í blöndunni.
 2. Hellið síðan blöndunni í gegnum gatasigti til að losna við öll fræ og leiðindi. Leyfið sósunni að kólna áður en hún er sett á kökuna.
Hlynsírópskrem
 1. Þeytið smjörið í 5 til 10 mínútur þar til það er orðið létt og ljóst. Bætið flórsykrinum smátt og smátt saman við og smakkið til.
 2. Bætið hlynssírópi og vanilludropum saman við. Ég vil hafa sterkt sírópsbragð þannig að ég set svolítið mikið út í.
 3. Loks er vanilludropum og sjávarsalti bætt saman við. Munið að það er aldrei hægt að þeyta smjörkrem of mikið og því meira sem þið þeytið, því léttara og mýkra verður það.
Mömmukökur
 1. Hitið smjör, sykur og síróp saman í potti yfir meðalháum hita þar til allt er bráðið og búið að blandast saman. Hér þarf ekki að hræra mikið í blöndunni. Kælið.
 2. Hrærið egg saman við smjörblönduna og síðan restina af hráefnunum. Hnoðið deigið vel saman og kælið það í ísskáp yfir nótt en það sleppur að kæla það í 3 klukkutíma.
 3. Hitið ofninn í 200°C og setjið bökunarpappír á ofnplötur. Fletjið deigið út en mér finnst kökurnar betri ef þær eru í þynnra lagi. Skerið út form og bakið þar til kökurnar hafa brúnast, 7-9 mínútur. Leyfið kökunum að kólna alveg áður en þær eru skreyttar.

Glassúr
 1. Blandið vel saman þar til glassúrinn er orðinn vel þykkur svo auðvelt sé að skreyta með honum. Ég man aldrei hlutföll þegar ég geri glassúr. Ég set bara eina eggjahvítu í skál og blanda svo flórsykri smátt og smátt saman við þar til ég fæ þykktina sem ég vill.
 2. Ég notaði lítil Smarties, sem fæst til dæmis í pokum frá Nóa Siríus, til að skreyta mömmukökurnar og kökuna með. Eins og sést á myndunum voru litlu Smarties-in í hlutverki jólaljósa. Skreytið nokkrar mömmukökur sem þið ætlið að nota ofan á kökuna og geymið restina af glassúrnum. Ég dustaði líka smá flórsykri yfir mömmukökurnar til að gefa smá snjókomufílíng.
Kakan sett saman
 1. Ég setti mína botna í frysti yfir nótt svo það væri auðveldara að vinna með þá. Setjið einn botn á snúningsdisk eða venjulegan disk. Sprautið kremi einn hring meðfram brúnunum. Smyrjið jarðarberjasósu ofan á botninn að kreminu. Setjið síðan vel af karamellukurli (fæst til dæmis frá Nóa Siríus) ofan á jarðarberjasósuna. Sprautið kremi yfir kurlið og sósuna og setjið næsta botn ofan á. Endurtakið með næsta botn og lokið kökunni með síðasta botninum.
 2. Byrjið á að smyrja þunnu lagi af smjörkremi yfir alla kökuna til að loka alla mylsnu inni, svokallað „crumb coat“. Kælið kökuna. Hyljið síðan kökuna með kreminu.
 3. Ég byrjaði á að sprauta glassúr við efstu brún kökunnar til að búa til ljósaseríu allan hringinn. Litlu Smarties-in notaði ég sem ljósaperur. Síðan tók ég mömmukökurnar góðu og stillti þeim upp eins og ég vildi á kökunni. Til að festa þær notaði ég smjörkrem og glassúr.
 4. Þetta er ekkert sérstaklega flókið en þetta tekur tíma. Það er hins vegar svo ofboðslega gaman að finna tíma til að leika sér aðeins og ég hvet ykkur til að hugsa út fyrir boxið og skreyta kökur með ímyndunaraflið að vopni!

Umsagnir

Umsagnir

This entry was posted in Kökur.