Blaka fagnaði fimm ára afmæli sínu þann 2. júní síðastliðinn. Fimm heil ár. Mér finnst eins og síðan hafi opnað í gær!
Það er margt ótrúlega skemmtilegt búið að gerast á þessum fimm árum. Ég er búin að gefa út bók, gráta með forsetanum, baka í sólarhring, baka kynjaköku, baka kynlausa köku, klúðra, fagna sigrum, koma mörgum uppskriftum á Foodgawker en fyrst og fremst er ég búin að skemmta mér konunglega.
Blaka er svo sannarlega gæluverkefnið mitt, en ég hefði aldrei náð að koma Blaka á þann stað sem hún er á í dag ef það væri ekki fyrir minn yndislega eiginmann. Ég man enn þá eftir deginum þegar ég sagði við hann í hálfkæringi að mig langaði að opna bakstursblogg. Hann sagði: „Ókei, gerum það.“ Þá hófst mikill bakstur og misgóðar myndatökur, en með tíð og tíma lærði ég meira um alls konar sem tengist bakstri og ég lærði líka að taka ágætar myndir af gúmmulaðinu mínu.
En heimur bakstursins er risavaxinn. Eins og móðir mín sagði við mig um daginn; því meira sem ég veit og læri fatta ég hvað ég veit í raun lítið. En eitt veit ég þó fyrir víst – bakstur er mín ástríða, mín hugleiðsla og yndi. Ég mun aldrei hætta að baka. Ég mun aldrei hætta að klúðra kökum og búa til meistaraverk.
Ég þakka ykkur kæru lesendur kærlega fyrir samfylgdina síðustu fimm ár og hlakka til næstu fimm, tíu, tuttugu, þrjátíu ára. Hér fyrir neðan er fimm ára afmæliskaka Blaka. Hún lætur lítið fyrir sér fara og er ekki nærri jafn litrík og fyrri afmæliskökur, en stundum er lágstemmt gott. Í þessu tilviki er það best.
Til hamingju með afmælið Blaka!
|
|
- 1bolli hveiti
- 2bollar sykur
- 1/2tsk sjávarsalt
- 1/2tsk lyftiduft
- 1bolli kakó
- 115g mjúkt smjör
- 4 Nesbú-egg
- 1tsk vanilludropar
- 190g Sykurpúðar
- 1-2msk vatn
- Hitið ofninn í 180°C. Smyrjið hringlaga form, um 18 sentímetrar að stærð.
- Blandið hveiti, sykri, salti, lyftidufti og kakói vel saman í skál. Setjið til hliðar.
- Þeytið smjörið í annarri skál í 3-5 mínútur. Hrærið eggjunum saman við, einu í einu. Blandið vanilludropunum saman við.
- Blandið þurrefnunum saman við smjörblönduna. Deigið á að vera þykkt. Hellið deiginu í formið og bakið í um 30 mínútur.
- Setjið sykurpúða og vatn í skál sem þolir örbylgjuofn og bræðið í 30 sekúndna hollum þar til allt er bráðnað saman. Munið að hræra alltaf á milli þessara holla.
- Dreifið úr sykurpúðablöndunni yfir brúnkuna á meðan hún er enn heit. Leyfið þessu að kólna.
- Setjið rjómann í pott og hitið, án þess að láta koma upp suðu. Setjið súkkulaðið í skál og hellið rjómanum yfir. Látið þetta standa í 5 mínútur og blandið svo vel saman. Hellið yfir kökuna og setjið inn í ísskáp í um klukkutíma.