Jæja, þá er kominn júlí og þema mánaðarins er hvítt súkkulaði. Ég elska, elska, elska hvítt súkkulaði og hreinlega skil ekki fólk sem býður við því. Það fólk má hella yfir sig bensíni og kveikja sér í sígarettu.
En alveg eins og „brownies“ heita á góðri íslensku brúnkur eru brúnkur þar sem uppistaðan er hvítt súkkulaði kallaðar „blondies“ eða ljóskur.
Þessi ljóska er ofureinföld. Maður þarf ekki einu sinni hrærivél eða handþeytara – handaflið er meira en nóg og undirbúningstíminn er afar lítill. Þannig að þessi ljóska er ekki aðeins bragðgóð heldur hentar vel þegar á að henda í einn geggjaðan eftirrétt korter í boð.
Lagleg ljóska
|
|
Hráefni
Kaka
- 115g smjör
- 150g hvítt súkkulaði
- 150g sykur
- 1 stórt Nesbú-egg
- 1tsk vanilludropar
- 1/3tsk salt
- 125g Kornax-hveiti
Krem
- 1msk smjör
- 50g hvítt súkkulaði
Leiðbeiningar
Kaka
- Hitið ofninn í 180°C. Bræðið smjör yfir lágum hita. Bætið hvíta súkkulaðinu og sykrinum við og leyfið að malla í 2 til 3 mínútur. Munið samt að hræra allan tímann. Takið blönduna af hellunni og leyfið henni að kólna aðeins.
- Bætið við egginu, vanilludropum og salti. Bætið hveitinu við og hrærið þar til allt er blandað saman - ekki meira en það.
- Setjið blönduna í lítið, ferhyrningslaga form og bakið í 25 til 30 mínútur. Leyfið kökunni að kólna og hlaðið svo í kremið.
Krem
- Bræðið smjör og súkkulaði saman og drissið yfir kökuna.