Ég er rosalega hrifin af brúnkum, eða brownies eins og þær heita á ensku. Maður má alls ekki hræra deigið lengi og ég geri það alltaf í höndunum svo brúnkan verði vel blaut og djúsí í miðjunni. Ég bara stenst ekki svona þykkt og djúpt súkkulaðibragð sem fyllir kroppinn af unaði. Ég held að ég gæti ekki lifað í þessum heimi án súkkulaðis.

Þannig að ég varð að baka brúnku í poppmánuðinum bara til að sjá hvort þetta tvennt ætti einhverja samleið. Og jú, þetta tvennt á svo sannarlega samleið.

Í þessari uppskrift nota ég sæta mjólk (sweetened condensed milk) sem ég er ástfangin af. Fólk spyr mig oft hvar sé best að kaupa þessa dásemd en ég kaupi mína alltaf í asískum matvöruverslunum. En ég hef samt fundið mjólkina í Kosti og Hagkaupum sem er algjör snilld.

Ef þið eruð ekki nálægt verslunum sem selja mjólkina þá getið þið til dæmis notað karamellusósu í staðinn svo poppið klístrist vel við brúnkuna.

Ókei, nóg af skrifum – ég er komin með vatn í munninn!


Tryllt brúnka með sætu poppi og karamellukurli
Leiðbeiningar
Brúnka
  1. Hitið ofninn í 180°C og klæðið 20 sentímetra, kassalaga form með smjörpappír þannig að hann nái upp á hliðunum.
  2. Blandið smjöri og sykri vel saman og hrærið því næst eggjunum saman við, einu í einu.
  3. Bræðið mjólkursúkkulaðið og blandið því saman við blönduna ásamt olíunni.
  4. Blandið þurrefnunum vel saman í annarri skál og blandið þeim við smjörblönduna.
  5. Hrærið súkkulaðibitunum varlega saman við með sleif eða sleikju.
  6. Skellið deiginu í formið og bakið í 25-30 mínútur. Leyfið kökunni að kólna.
Toppur
  1. Poppið. Dreifið 1/3 af mjólkinni ofan á kökuna og stráið poppi síðan yfir. Endurtakið þar til þið eruð búin að klára bæði popp og mjólk.
  2. Bræðið súkkulaðið og drissið því yfir og skreytið kökuna því næst með karamellukurli.

Umsagnir

Umsagnir