Það er víst ekkert leyndarmál að ég eeelska ostakökur. Og sem betur fer er ég búin að smita eldri dóttur mína af þessari ást og vitum við fátt betra en að sitja saman við eldhúsborðið og japla á góðri ostaköku á meðan við förum yfir heimsmálin.
Þessi ostakaka er náttúrulega ekki af þessum heimi. Yndislegur kexbotn, fáránlega góð karamellusósa og silkimjúk ostakaka með hvítu súkkulaði. Á toppinum er síðan karamellupopp sem kemur skemmtilega á óvart.
Ef þið elskið ostaköku eins mikið og ég þá verðið þið að skella í þessa elsku. Og stór plús er að það þarf ekki einu sinni að kveikja á ofninum!
Sjúk karamelluostakaka með karamellupoppi
|
|
Hráefni
Botn
- 125g hafrakex
- 125g Golden Oreo-kex
- 100g bráðið smjör
Karamellusósa
- 1poki Freyju karamellur
- 1/4-1/2bolli rjómi
- sjávarsalt
Ostakaka
- 450g mjúkur Philadelphia-rjómaostur
- 1tsk vanilludropar
- 75g flórsykur
- 175ml rjómi
- 75g hvítt Milka-súkkulaði
- 1lúka Orville Redenbacher's Naturals-örbylgjupopp
Leiðbeiningar
Botn
- Myljið hafrakexið og Oreo-kexið með glasi eða í matvinnsluvél.
- Blandið kexmulningnum saman við smjörið og þrýstið þessu í botninn á meðalstóru formi - ca 18-20 sentímetra.
- Setjið botninn inn í ísskáp á meðan þið búið til karamellusósuna.
Karamellusósa
- Setjið 1/4 bolla af rjóma og Freyju-karamellurnar í skál og hitið í örbylgjuofni þar til allt er bráðið saman, en bara 30 sekúndur í einu. Gott er að hræra eftir hverjar 30 sekúndur. Ef þið þurfið meiri rjóma þá bara bætið þið honum við.
- Hellið sósunni ofan á kexbotninn, en geymið sirka 2 matskeiðar af henni fyrir poppið. Stráið smá sjávarsalti yfir.
- Skellið þessu inn í ísskáp á meðan þið búið til ostakökuna.
Ostakaka
- Blandið rjómaosti, vanilludropum og flórsykri vel saman.
- Bræðið hvítt súkkulaði og leyfið því aðeins að kólna.
- Blandið hvíta súkkulaðinu saman við rjómaostablönduna.
- Þeytið rjómann í annarri skál og blandið honum svo varlega saman við restina með sleif eða sleikju.
- Dreifið ostakökunni yfir karamellusósuna.
- Takið lúku af örbylgjupoppinu sem þið eruð búin að poppa og blandið saman við karamellusósuna sem þið geymduð áðan.
- Skreytið ostakökuna með poppinu.