Það er ein týpa af bakkelsi sem er alltaf á boðstólnum hjá mér þegar ég blæs til veislu og það eru Rice Krispies-kökur. Mér finnst þær algjörlega ómissandi enda ekkert eðlilegt hvernig börn og fullorðnir á öllum aldri geta gúffað þessum einföldu en ómótstæðilegu kökum í sig.
Það eiga allir að eiga eina skothelda uppskrift að Rice Krispies-kökum og þar sem ég hlóð í eina porsjón af kökunum um daginn ætla ég að gefa ykkur eina bónus uppskrift í dag. Ég get bara ekki hugsað til þess að einhver eigi EKKI uppskrift að Rice Krispies-kökum. Fyrir mér er það glæpur. Eins og að finnast smjörkrem vont. En nóg um það síðar!
Ég gerði Rice Krispies-kökur um daginn því ég var að skíra litla hnoðrann minn sem kom í heiminn 22. júní. Hin dóttir mín, sem varð fimm ára í janúar, fékk að skreyta þær og valdi að skreyta þær með bleiku súkkulaði. Mjög vel valið, þó ég segi sjálf frá.
Njótið, borðið, elskið!
Rice Krispies-kökur sem allir dýrka
|
|
Hráefni
- 150g smjör
- 300g ljóst hjúpsúkkulaði
- 11msk síróp
- 1tsk gróft salt
- 250-300g Rice Krispies
Leiðbeiningar
- Bræðið smjör, súkkulaði og síróp saman í stórum potti yfir vægum hita.
- Takið pottinn af hellunni þegar blandan er orðin þykk og djúsí og hellið salti og Rice Krispies saman við. Passið að blanda öllu vel saman svo allt morgunkornið sé þakið í súkkulaðiblöndunni.
- Deilið blöndunni á milli möffinsforma áður en hún kólnar. Kælið og hakkið í ykkur!