Fyrst að ég leyfði rabarbanum að vera með í þema mánaðarins finnst mér við hæfi að loka mánuðinum með þessu súra lostæti.
Í þessari uppskrift spilar karamellusósa stórt hlutverk til að vega upp á móti súra bragðinu. Ég mæli með því að þið búið til ykkar eigin karamellusósu, eins og þessa hér. En auðvitað er ekkert mál að spara smá tíma með að kaupa karamellusósu út í búð. Þá mæli ég með að þið kaupið þykka og djúsí karamellusósu sem hægt er að borða eintóma með skeið. Eða bara sprauta beint uppí sig. Ó, hafið þið aldrei gert það?
Rabarbara- og karamellukaka
|
|
Hráefni
- 350g rabarbari, skorinn í litla bita
- 115g mjúkt smjör
- 1 1/4bolli sykur
- 1tsk vanilludropar
- 3 Nesbú-egg
- 1 2/3bolli Kornax-hveiti
- 2tsk lyftiduft
- 1/2tsk kanill
- 1/8tsk salt
- 1bolli karamellusósa
- flórsykur(til að skreyta)
Leiðbeiningar
- Hitið ofninn í 190°C og smyrjið meðalstórt, hringlaga kökuform.
- Blandið hveiti, lyftidufti, kanil og salti saman og setjið skálina til hliðar.
- Blandið smjöri og sykri vel saman í annarri skál. Bætið eggjunum saman við, einu í einu, og hrærið vel saman. Síðan er vaniludropunum bætt saman við.
- Þurrefnunum er bætt varlega saman við þar til allt er blandað saman. Passið ykkur að hræra ekki of lengi.
- Rabarbara er blandað varlega saman við deigið og það síðan sett í kökuformi. Karamellusósunni er síðan hellt yfir kökuna og hún bökuð í 35 til 45 mínútur.