Fyrst að ég get ekki safnað yfirvararskeggi ákvað ég að taka samt þátt í Mottumars með því að búa til sérstakar Mottumars-bollakökur.

Og þar sem slagorð mánaðarins er: Ert þú að farast úr karlmennsku? lagði ég höfuðið í bleyti hvaða bragðtegundir gætu túlkað það best.

Ég ákvað því að búa til trylltar bollakökur með saltkringlum í deiginu og toppaði svo herlegheitin með smjörkremi með bjór sem hljómar kannski ekki vel en kemur skemmtilega á óvart. Ég lofa!

Maðurinn minn fékk að skreyta tvær bollakökur og sýndi mikla snilli með að skera út yfirvararskegg úr súkkulaði. Ég sver það, það er ekkert sem þessi maður getur ekki gert! Ég var í smá basli með mínar mottur en að lokum ákvað ég að súkkulaðihúða saltkringlur sem kom svona líka skemmtilega út. Alvöru Tom Selleck-mottur. Svo bara lékum við okkur með þetta mottukonsept aðeins því það er nú einu sinni þannig að motturnar geta verið alls konar.

Áfram #Mottumars


Mottumars-bollakökur með saltkringlum og bjórkremi
Hráefni
Bollakökur
Bjórkrem
Leiðbeiningar
Bollakökur
  1. Hitið ofninn í 180°C og takið til 12 möffinsform. Mér finnst mín form æðislega falleg en ég fékk þau í Mega Store í Smáralind af öllum stöðum.
  2. Myljið saltkringlurnar í matvinnsluvél þannig að það séu ekki mikið af stórum bitum.
  3. Blandið þurrefnum vel saman í skál og setjið til hliðar.
  4. Hrærið smjör í 1-2 mínútur og blandið síðan sykrinum saman við.
  5. Bætið eggjahvítunum út í, eina í einu og hrærið vel.
  6. Nú kemur að því að blanda þurrefnum og mjólk saman við smjörblönduna. Skiptist á að blanda þurrefnum og mjólk saman við þar til allt er vel blandað saman. Blandið síðan vanilludropunum saman við.
  7. Deilið deiginu í formin og bakið í 18-22 mínútur. Leyfið kökunum að kólna áður en þið skreytið þær.
Bjórkrem
  1. Hrærið smjörið í 4-5 mínútur þar til það er létt og ljóst.
  2. Blandið flórsykri saman við og síðan bjórnum. Ég blandaði alveg 5-6 matskeiðum af bjór saman við til að fá sterkt bragð. Ef þið viljið daufara bragð þá minnkið þið magnið af bjór og þurfið þá að þynna kremið með mjólk.
  3. Blandið sjávarsaltinu saman við og hrærið vel.
  4. Skreytið kökurnar með kreminu. Ef þið viljið skreyta með súkkulaðihúðuðum saltkringlum þá bræðið þið ca 70-100 g dökkt súkkulaði og dýfið saltkringlunum ofan í. Leyfið súkkulaðinu að storkna og skreytið.

Umsagnir

Umsagnir