Ég er algjör poppfíkill. Því ákvað ég að prófa hvernig væri að baka með poppi. En það var ekki nóg að hafa bara popp. Ó nei, ég þurfti eitthvað aðeins meira kikk.

Maltesers varð fyrir valinu sem súkkulaðiviðbót í kökurnar. Hver elskar ekki Maltesers? Óþolandi nammi sem hverfur ofan í mann því það er svo helvíti létt!

Þessar kökur eru eiginlega fullkomnar. Poppið gerir þær stökkar og góðar og Maltesers gerir þær mjúkar og gúmmulaðisætar. Þessar, litlu, saklausu smákökur eru vissulega öðruvísi og líta kannski ekki út fyrir að vera girnilega en ekki láta útlitið blekkja ykkur. Þær eru jafngóðar og dúnmjúk kókosbolla á köldu haustkvöldi.

 

Maltesers- og poppkökur
Leiðbeiningar
  1. Hitið ofninn i 175°C og setjið bökunarpappír á ofnplötur.
  2. Byrjið á því að poppa á gamla mátan. Hellið síðan smjörinu sem þið eruð búin að bræða yfir poppið og stráið salti yfir það. Passið að skilja ekkert popp eftir sem er ópoppað eða hálfpoppað. Þetta ættu að vera fjórir til fjorir og hálfur bolli af poppi.
  3. Blandið hveiti, matarsóda og salti saman í skál og setjið til hliðar.
  4. Blandið smjöri, púðursykri og sykri saman í annarri skál í um það bil tvær mínútur. Bætið eggjunum saman við og vanilludropum og hrærið í um eina mínútu í viðbót.
  5. Blandið þurrefnablöndunni hægt og rólega saman við smjörblönduna.
  6. Blandið poppi og Maltesers rólega saman við með sleif. Passið að kremja ekki poppið.
  7. Búið til kúlur úr deiginu og setjið á ofnplöturnar. Skreytið kúlurnar með grófu sjávarsalti og bakið í tíu til tólf mínútur.

Umsagnir

Umsagnir

Skildu eftir svar