Hér er á ferð ein af mínum farsælustu tilraunum í eldhúsinu en þessi eftirréttur er kominn á topp 3 listann minn yfir bestu eftirrétti Blaka.

Ég náttúrulega elska Oreo út af lífinu og er nóg af því í þessum eftirrétt og meira að segja tvær týpur af þessu yndislega kexi.

Svo er þetta svo ofureinfalt. Stjarnan hér er búðingur nema það eru engin egg í honum þannig að það er nánast ómögulegt að klúðra honum nema að maður sé með einbeittan brotavilja.

Uppskriftin dugir fyrir fjóra ef þið notið frekar lítil eftirréttarglös en trúiði mér – splæsið bara í tvö stór. Þetta er það gott!


Eftirréttur með tvöföldum skammti af Oreo
Hráefni
Leiðbeiningar
Botn
  1. Blandið Oreo-kexinu og smjörinu saman og deilið því á milli 4 eftirréttaglasa. Þrýstið blöndunni í botninn og setjið til hliðar.
Búðingur
  1. Bræðið súkkulaðið í potti yfir lágum hita. Hrærið stanslaust svo það brenni ekki við.
  2. Hrærið mjólk, sykri og maizena saman við og hækkið hitann aðeins. Leyfið blöndunni að sjóða og hrærið stöku sinnum í henni þangað til hún þykknar, eða í um 10 mínútur.
  3. Takið pottinn af hellunni og blandið smjöri og vanilludropum saman við. Leyfið blöndunni að kólna aðeins og blandið svo Oreo-kexinu varlega saman við.
  4. Deilið búðingnum á milli glasanna og setjið þau inn í ísskáp í klukkustund.
Ofan á
  1. Þeytið rjóma og sprautið honum ofan á búðinginn. Drissið kexmylsnu yfir.

Umsagnir

Umsagnir