Ef ég ætti að velja eitt orð til að lýsa þessum smákökum þá væri það: Stökkar.
Maður fær aldrei leið á að búa til hefðbundnar Rice Krispies-kökur. Þið vitið, einkennismerki góðs barnaafmælis. Kökur sem eru svo guðdómlega klístraðar að það er vel þess virði að hesthúsa þeim líkt og smákrakki dúndrar í sig barnamauki á góðum degi.
En Rice Krispies er svo gott í alls konar annan bakstur og þessar smákökur eru aðeins þær fyrstu af mörgu lostætinu sem á eftir að birtast hér á þessari síðu um ókomin ár. Ok, allavega ókomnar vikur og mánuði.
Þurfum við svo eitthvað að ræða Daim? Nei, ég held ekki!
Daim- og Rice Krispies-kökur
|
|
Hráefni
- 280g hveiti
- 1tsk matarsódi
- 1tsk salt
- 2bollar haframjöl
- 225g mjúkt smjör
- 3/4bolli sykur
- 3/4bolli púðursykur
- 1tsk vanilludropar
- 2 stór egg
- 1bolli Daim-kúlur
- 2bollar Rice Krispies+ smá aukalega til að skreyta
Leiðbeiningar
- Hitið ofninn í 180°C. Setjið bökunarpappír á ofnplötur. Blandið hveiti, salti, matarsóda og haframjöli vel saman í skál og setjið til hliðar.
- Blandið smjöri, sykri og púðursykri vel saman í annarri skál. Blandið því næst eggjum og vanilludropum saman við.
- Blandið þurrefnum varlega saman við smjörblönduna. Blandið Daim og Rice Krispies varlega saman við með sleif.
- Búið til kúlur úr deiginu og setjið á ofnplötur. Fletjið þær aðeins út. Skreytið kökurnar með smá Rice Krispies og bakið í sjö til níu mínútur.