Ó, sykurpúðar. Af hverju eruð þið svona dásamlegir?
Ég veit ekki af hverju ég hef aldrei prófað að fylla bollakökur með sykurpúðum! Hvað er ég eiginlega búin að vera að gera allan þennan tíma?!
Ég lofa ykkur að það er algjörlega himneskt að bíta í eina nýbakaða bollaköku og fá óvæntan glaðning sem er sykurpúðinn í miðjunni. Gjörsamlega geggjað!
Og já, þessar bollakökur eru í fánalitunum því ég bakaði þær fyrir 17. júní og þær slógu í gegn í þjóðhátíðarkaffinu!
Bollakökur fylltar með sykurpúðum
|
|
Hráefni
Bollakökur
- 200g sykur
- 200g mjúkt smjör
- 4 Nesbú-egg
- 200g Kornax-hveiti
- 1tsk lyftiduft
- 1tsk vanilludropar
- 12 Sykurpúðar(ég notaði 24 litla því ég gerði mínar kökur í litlum formum en ef þið notið stór form þá mæli ég með að nota stóra sykurpúða)
Krem
- 100g mjúkt smjör
- 2-3bollar flórsykur
- 1tsk vanilludropar
- 40g hvítt súkkulaði, brætt
- 1/2bolli Sykurpúðar
Leiðbeiningar
Bollakökur
- Hitið ofninn í 170°C og takið til 12-24 bollakökuform, allt eftir stærð.
- Blandið sykri og smjöri vel saman. Bætið því næst eggjum út í, einu í einu.
- Blandið hveiti og lyftidufti saman og bætið því síðan út í smjörblönduna og blandið vel saman.
- Loks er vanilludropunum blandað vel saman við.
- Deilið deiginu á milli formanna og bakið í 15-20 mínútur.
- Leyfið kökunum að kólna, skerið síðan holu í hverja þeirra og setjið sykurpúða ofan í holuna.
Krem
- Byrjið á því að bræða saman hvítt súkkulaði og sykurpúða. Þetta er hægt að gera í örbylgjuofni en þá verður að fylgjast mjög vel með og hita blönduna ekki lengur en í 10-15 sekúndur í einu, annars getur þetta brunnið.
- Þeytið smjörið í 1-2 mínútur og bætið flórsykrinum saman við.
- Bætið vanilludropum og súkkulaði- og sykurpúðablöndunni saman við og hrærið vel. Skreytið kökurnar með kreminu og njótið.