Hér er á ferð alveg einstaklega einföld og dásamleg uppskrift að eftirréttarlasanja.
Uppskriftina er að finna í bókinni minni, Minn sykursæti lífsstíll, og það var sem fyrr hin hæfileikaríka og yndislega Sunna Gautadóttir sem tók myndirnar af gúmmulaðinu, sem og allar myndirnar í bókinni.
Þennan rétt þarf alls ekki að baka, en í bókinni er sérstakur kafli fyrir kruðerí sem þarf ekki að baka, svona fyrir þá sem hræðast bakarofninn eins og heitan eldinn.
Njótið þessa einstaka lasanja!
Sykurpúða- og súkkulaði lasanja
|
|
Hráefni
- 2pakkar instant-súkkulaðibúðingur
- 4bollar nýmjólk
- 1dós sykurpúðakrem(marshmallow-fluff)
- 1peli rjómi
- 200g litlirsykurpúðar
- 400g hafrakex
- súkkulaðisósa
Leiðbeiningar
- Blandið mjólkinni saman við búðingsduftið og hrærið vel í um 2 mínútur. Setjið til hliðar.
- Í annarri skál hrærið þið marshmallow-fluff, sem er nokkurs konar sykurpúðarkrem, saman við rjómann. Hrærið næstum því öllum sykurpúðunum saman við rjómablönduna og geymið nokkra til að skreyta með.
- Takið til ílangt form, 33–35 sentímetra langt. Raðið 1/3 af hafrakexi á botninn, smyrjið helmingnum af rjómablöndunni ofan á hafrakexið og smyrjið síðan helmingnum af búðingnum ofan á rjómablönduna. Endurtakið.
- Myljið nokkur hafrakex ofan á blönduna og dreifið nokkrum sykurpúðum yfir. Sprautið súkkulaðisósu yfir herlegheitin. Setjið réttinn í ísskáp í um klukkustund eða þar til á að bera hann fram. Þetta er hættulega gott!