Það hlaut að koma að því. Ég varð auðvitað að prófa að baka Paleo-smákökur. Gæti það verið gott? Ekkert smjör, ekkert hveiti, enginn sykur. Er hægt að gera smákökur án þess.
Jú, jú, það er sko hægt. Og það er hægt að baka rosalega góðar svoleiðis smákökur! Ég veit, ég varð mjög hissa!
Þessar smákökur eru svo góðar að allir á heimilinu elska þær! Og höfðu ekki hugmynd um að þær væru eitthvað hollari en vanalegar smákökur fyrr en ég sagði þeim það. Maður fær sirka 20 smákökur úr þessari uppskrift og þær kláruðust nánast áður en ég var búin að loka ofninum!
Þetta er rosalega góð og einföld uppskrift – svo góð að ég ætla að baka þessar aftur og aftur og aftur, í bland við sykursyndirnar mínar. Svo er tilvalið að bæta smá Paleo-súkkulaði út í deigið, hnetum eða kókosmjöli. Það er jafnvel hægt að blanda saman kókossykri og kanil í skál og velta kökunum upp úr því áður en þær eru bakaðar. Endilega prófið ykkur áfram!
|
|
- 3msk hlynsíróp
- 3msk hunang
- 1/4bolli bráðin kókosolía
- 1/2tsk sítrónusafi
- 1 Nesbú-egg
- 1bolli möndlumjöl
- 1/2bolli kókoshveiti
- 1/2tsk matarsódi
- 1tsk kanill
- 1/4tsk sjávarsalt
- Hitið ofninn í 175°C og klæðið ofnplötu með smjörpappír.
- Blandið sírópi og hunangi vel saman og bætið olíu, sítrónusafa og eggi vel saman við þar til blandan þykknar.
- Blandið öllum þurrefnum vel saman í skál og blandið síðan saman við blautefnin.
- Leyfið þessu að standa í nokkrar mínútur svo mjölið sogi í sig þurrefnin og blandan verði ekki alltof blaut.
- Búið til litlar kúlur úr deiginu og raðið þeim á ofnplötuna. Þær mega vera nálægt hvor annarri því þær breiða ekki úr sér. Fletjið þær síðan aðeins út með lófanum.
- Bakið í 10-13 mínútur og leyfið kökunum að kólna.