Varúð: Hér á eftir fylgir frekar mikil #humblebrag færsla því ég er bara svo svakalega ánægð með fermingarterturnar sem ég bakaði handa systurdóttur minni, þá sérstaklega saltkaramellu kökuna.

Glódís, systurdóttir mín, sem sagt fermdist í gær, þann 2. apríl og fékk ég þann heiður frá fermingarbarninu sjálfu að baka fermingartertuna. Ég fékk algjörlega frjálsar hendur en vissi að það þýddi ekkert slor fyrir hana Glódísi mína. Hún elskar fínheit og að punta sig og hefur klætt sig í gömlu kjólana mína eins og lengi og ég man eftir henni. Þannig að þessi kaka þyrfti að vera extra sérstök.

Ég fékk að vita að túrkísblátt þema væri í veislunni og var það í rauninni það eina sem ég fékk að vinna með. Eftir að brjóta heilann lengi, lengi um hvað ég ætti að baka ákvað ég loks að baka þrjár kökur – eina fyrir hvert æviskeið Glódísar. Fyrsta kakan, sjálf fæðingin og fyrstu árin, var bara einn botn, en ég notaði sama botn og ég notaði í fallegu einhyrningakökuna mína. Þessi kaka var ekki mikið skreytt heldur fékk súkkulaðiblómið sem hún Glódís er að njóta sín.

Önnur kakan var tveir botnar, dásamleg og dúnmjúk vanillukaka með saltkaramellu á milli botnanna og saltkaramellukremi. Þessi kaka átti að tákna Glódísi sem barn, enda var hún dísæt, alltaf í góðu skapi en líka mjög mjúk og tilfinningarík. Sú var aðeins meira skreytt, enda bættist í sífellu á persónuleika Glódísar þegar hún óx úr grasi.

Þriðja kakan átti að merkja þessi tímamót sem fermingin er. Glódís var ekki lengur barn heldur komin í fullorðinna manna tölu. Því var sú kaka þrjár hæðir. Þrír hnausþykkir súkkulaðibotnar, með ekta fínu og djúsí kakói, límdir saman með Oreo-ostaköku og síðan hulin með hvítsúkkulaði smjörkremi. Þessi kaka var svakalega mikið skreytt, með gylltu hvítu súkkulaði, litlu páskaeggi, heimabakaðri markónu og ýmsu fíneríi. Svo má ekki gleyma litlu glimmermarengskökunum sem voru ó, svo fallegar á tertunum.

Ég er svakalega ánægð með kökurnar mínar þrjár og ég held að Glódís hafi líka verið afskaplega ánægð með þær. Ég er svo snortin að hún hafi viljað að ég bakaði kökurnar og vonandi fæ ég að baka líka fyrir hinar sætu frænkurnar og frænda.

Hér fylgir saltkaramellu kakan sem ég var hvað ánægðust með þegar kemur að bragði. Botnarnir eru svo ofboðslega góðir að það mætti halda að atvinnubakari hafi bakað þá. Saltkaramellu sósan er heimatilbúin, en auðvitað getið þið stytt ykkur leið með því að kaupa hana tilbúna út í búð. Svo er það dásamlega smjörkremið sem límir þetta allt saman.

Þessi kaka stelur senunni á hvaða veisluborði sem er!

Saltkaramellu

Glódís Björt yndisfrænka.


Ómótstæðileg saltkaramellu kaka
Hráefni
Kökubotnar
Karamellusósa
Smjörkrem
Leiðbeiningar
Kökubotnar
  1. Hitið ofninn í 175°C og klæðið tvö hringlaga form, sirka 18 sentímetra stór, með smjörpappír.
  2. Byrjið á því að þeyta eggin vel þar til þau þeyta. Hellið síðan sykrinum varlega saman við í mjórri bunu og þeytið þar til blandan minnir á búðing, eða í um 5 til 7 mínútur.
  3. Blandið síðan hveiti, lyftidufti og sjávarsalti vel saman við.
  4. Setjið mjólk og smjör í skál sem þolir örbylgjuofn og hitið þar til smjörið er bráðnað.
  5. Nú þarf að eins að tempra þannig að sirka einn bolli af deiginu er hrærður saman við heita mjólkina. Síðan er því hellt saman við restina af deiginu og hrært vel saman. Að lokum er vanilludropum blandað saman við.
  6. Deilið deiginu á milli formanna tveggja og bakið í tuttugu mínútur. Lækkið síðan hitann í 160°C og bakið í tíu mínútur til viðbótar, en fylgist vel með botnunum svo þeir brenni ekki.
  7. Leyfið botnunum að kólna áður en sósan og kremið er sett á.
Karamellusósa
  1. Setjið sykur í pott og hitið yfir meðalhita. Hrærið stanslaust í sykrinum, en fyrst mun hann verða að kögglum og síðan bráðna í ljósbrúna blöndu.
  2. Þegar sykurinn er bráðnaður bætið þið smjörinu út í og hrærið áfram stanslaust. Passið ykkur því blandan mun bubbla og láta illa þegar smjörið snertir sykurinn. Hrærið þar til allt smjörið er bráðnað og búið að blandast saman við sykurinn.
  3. Hellið síðan rjómanum varlega út í á meðan þið hrærið en blandan mun aftur láta illa. Leyfið þessu að sjóða í um 1 mínútu en haldið áfram að hræra stanslaust.
  4. Takið pottinn af hellunni og blandið saltinu og vanilludropum saman við. Hellið blöndunni í aðra skál og leyfið henni að ná stofuhita.
  5. Makið dágóðum slatta af sósunni á annan kökubotninn.
Smjörkrem
  1. Þeytið smjörið í 5-6 mínútur og bætið síðan flórsykri, karamellusósu og vanilludropum saman við.
  2. Blandið smá rjóma saman við ef kremið er of þykkt.
  3. Skellið vænri slummu af kreminu ofan á karamellusósuna á öðrum botninum og lokið kökunni með hinum botninum. Leyfið síðan ímyndunaraflinu að taka við þegar þið skreytið kökuna.

Umsagnir

Umsagnir