Jæja, þá er komið á síðustu uppskriftinni í þessum æðislega mánuði sem mér persónulega finnst sá skemmtilegasti á Blaka hingað til!
Hverju afmæli fylgir afmæliskaka sem oftar en ekki er alsett nammi. En í þetta sinn hugsaði ég: Af hverju ekki að hafa nammið innan í kökunni? Það sló svona rækilega í gegn og er gaman að sjá hvað börnin verða hissa þegar þau skera í kökuna og nammi veltur út úr henni.
Ég notaði mína bestu skúffukökuuppskrift í þessa köku og ég ét hattinn minn ef þið getið fundið betri skúffukökuuppskrift en þessa!
Öðruvísi nammikaka
|
|
Hráefni
Kaka (2 ca 19 cm botnar)
- 2bollar Kornax-hveiti
- 2bollar sykur
- 1/2tsk salt
- 225g smjör
- 4kúfaðar msk kakó
- 1bolli sjóðandi heitt vatn
- 1/2bolli sýrður rjómi
- 2 Nesbú-egg
- 1tsk matarsódi
- 1tsk vanilludropar
Krem og skreyting
- 100g mjúkt smjör
- 5-6bollar flórsykur
- 1 tsk vanilludropar
- 5-6 msk mjólk
- skemmtilegur matarlitur
- 1poki Dumle Snacks
- 1poki Trolli-hlaupormar
- 1poki skólakrítar frá Fazer
- 1poki Skittles
Leiðbeiningar
Kaka
- Hitið ofninn í 180°C og smyrjið tvö 19 sentímetra, hringlaga form.
- Blandið hveiti, sykri og salti saman í skál og setjið til hliðar.
- Bræðið smjörið yfir lágum hita og bætið síðan kakóinu og vatninu saman við. Takið af hellunni.
- Blandið sýrðum rjóma, eggjum, vanilludropum og matarsóda saman í annarri skál.
- Blandið eggjablöndunni við hveitiblönduna og hrærið vel. Bætið síðan smjörblöndunni út í og hrærið bara þangað til allt er orðið blandað saman - ekki hræra of lengi.
- Bakið í 15-18 mínútur og leyfið botnunum alveg að kólna áður en kakan er sett saman.
Krem og skreyting
- Blandið flórsykri og smjöri vel saman og bætið síðan vanilludropum saman við.
- Blandið mjólkinni saman við smátt og smátt þar til kremið er mátulega stíft. Notið matarlit ef þið viljið gera kökuna litríka (dóttir mín vildi grátt - hvað er það?!)
- Svo setjum við kökuna saman. Ég keypti ætilegan Monster High-topp á kökuna þannig að ég skar frekar stóran hring í báða botnana og tók þann part úr. Ef þið eruð ekki með topp á kökuna verðið þið að passa að hringurinn sem er á efri botninum sé ekki alveg í gegn.
- Setjið krem á neðri botninn og setjið efri botninn ofan á. Fyllið holuna af nammi og setjið síðan krem í kringum hringinn (og á hliðarnar ef þið viljið - ég sleppti því)
- Ef þið notið topp setjið þið toppinn á og kakan er tilbúin. Ef þið notið ekki topp þá að sjálfsögðu setjið þið krem ofan á allan efri botninn.