Þið sem fylgist eitthvað með þessari síðu, tóku kannski eftir Paleo mánuðinum mínum þar sem ég bjó til alls kyns góðgæti sem innihélt ekkert hveiti, engan sykur og engar mjólkurvörur. Það reyndist mér, sykurfíklinum, afar erfitt en það var líka svolítið skemmtilegt að reyna aðeins á sig í eldhúsinu.
En út af því að ég tók þennan Paleo mánuð átti ég allt í einu alls konar heilsusamleg hráefni í búrinu. Þar á meðal möndlumjöl. Þannig að um helgina ákvað ég að prófa að baka möndlumjölsbrauð, en þeir sem þekkja ekki þetta mjöl þá er það unnið úr möndlum og er mjög próteinríkt en inniheldur lítið af kolvetnum.
Þetta brauð kom mér ánægjulega á óvart og er mýksta brauð sem ég hef á ævi minni smakkað. Það er afskaplega létt í maga og geymist vel í nokkra daga. Það er reyndar svo bragðgott að það geymdist frekar illa á mínu heimili, þó að krakkarnir væru ekki alveg að gúddera þetta nýmeti. Ég gerði þau byrjendamistök að segja þeim að þetta væri heilsubrauð og þá var gamanið búið!
En ég mæli með þessu brauði ef þið viljið minnka hveitið og kolvetnin. Ég smurði hummus á mitt og borðaði þetta eins og sælgæti. Njótið!
|
|
- 1 2/3bolli möndlumjöl
- 4 Nesbú-egg
- 1/4bolli nýmjólk(gott að skipta út fyrir möndlumjólk)
- 2msk ólífuolía
- 2tsk lyftiduft
- 1/2tsk sjávarsalt
- 2-3msk graskersfræ(má sleppa)
- Hitið ofninn í 175°C og smyrjið hefðbundið brauðform með olíu.
- Blandið öllum hráefnum vel saman í skál en deigið á að vera kekkjalaust og í þynnri kantinum.
- Hellið deiginu í formið og bakið í miðjum ofni í 40 mínútur.
- Leyfið brauðinu að kólna aðeins í forminu áður en þið takið það úr og skerið í sneiðar.