Nú nálgast Valentínusardagurinn óðfluga og þar sem ég fann þessi sætu, hjartalaga form í Tiger um daginn ákvað ég að hlaða í eina ómótstæðilega og sóðalega góða uppskrift.

Við erum að tala um Dumle-súkkulaðiköku á tvo vegu sem á eftir að slá í gegn hjá þeim sem þú elskar – hvort sem það er maki, börn, fjölskylda eða vinir. Þessi kaka hefur allt – súkkulaði, karamellu og stökkar kúlurnar inni í Dumle-namminu kóróna svo blönduna. Sjálf kakan er eins í báðum formum en toppurinn er mismunandi – báðir jafngóðir samt!

Hjartaformin eru í minni kantinum en þessi uppskrift ætti líka að passa í eitt 20 sentímetra, kassalega form. Njótið með ykkar heittelskuðu!


Dumle-súkkulaðikaka á tvo vegu
Leiðbeiningar
  1. Hitið ofninn í 180°C og takið til form.
  2. Blandið sykri, púðursykri og smjöri saman með písk (ég nota aldrei handþeytara eða hrærivél þegar ég geri svona brúnku, eða brownies).
  3. Bætið eggjunum út í, einu í einu og hrærið vel. Því næst er rjómanum (3 msk) hrært saman við.
  4. Blandið hveiti, kakói, lyftidufti og salti saman í annarri skál. Blandið þurrefnunum varlega saman við sykurblönduna en bara rétt svo þar til allt hefur blandast saman.
  5. Deilið deiginu á milli tveggja forma ef þið notið litlu, sætu hjartalaga formin.
  6. Dreifið möndluflögum yfir aðra kökuna og skellið þeim báðum í ofninn.
  7. Eftir 30 mínútur takið þið aðra kökuna úr ofninum og raðið Dumle Snacks (ca 1/2 poki) ofan á hana. Setjið hana aftur inn í ofn og bakið í 5-15 mínútur í viðbót en mér finnst gott að hafa svona brúnku aðeins blauta.
  8. Á meðan hitið þið 4 msk af rjóma í örbylgjuofni. Hellið restinni af Dumle Snacks í skál og hellið síðan brennandi heitum rjómanum ofan á nammið. Látið þetta standa í smá stund og hrærið síðan saman. Ef allt súkkulaðið hefur ekki bráðnað er lítið mál að henda þessu aðeins inn í örbylgjuofninn aftur.
  9. Takið kökurnar úr ofninum. Stingið nokkur göt í kökuna með möndluflögunum og hellið Dumle-rjómablöndunni ofan á hana á meðan hún er heit.

Umsagnir

Umsagnir