Út af því að ég er sólgin í sætindi ákvað ég að búa til Paleo-útgáfu af Snickers.
Nú hugsa margir, kannski ekki margir en sumir: Það er ekkert mál því hetjan í Snickers er salthnetan. Mikið rétt. En salthnetur, sem sagt saltaðar jarðhnetur, eru ekki hnetur heldur belgjurtir og því á bannlista! Þannig að möndlur og kasjúhnetur leysa salthneturnar af hólmi og ég verð að segja að þetta er mjög vel heppnað konfekt. Saðsamt og nær að fullnægja sykurþörfinni án þess að láta mann fá nammviskubit og velgju eftir tuttugasta bitann.
Í þessari uppskrift nota ég súkkulaðið sem ég bjó til í byrjun mánaðar en þið getið líka keypt Paleo-súkkulaði, til dæmis í Krónunni.
Þetta er ein af mínum uppáhaldsuppskriftum í mánuðinum – ég mæli með þessari!
|
|
- 2bollar kasjúhnetur(eða kasjúhnetusmjör)
- 2msk bráðin kókosolía(notið 3 msk. ef þið notið kasjúhnetusmjör)
- 2tsk hlynsíróp(sleppa ef þið notið smjörið)
- 1-2tsk sjávarsalt
- 1bolli möndlur
- 6 döðlur
- 1/2bolli hlynsíróp
- 1tsk vanilludropar
- 2msk bráðin kókosolía
- sjávarsalt eftir smekk
- 100-200g Paleo-súkkulaði(sjá fyrir ofan)
- Setjið kasjúhnetur í matvinnsluvél og myljið.
- Blandið restinni af hráefnunum vel saman við.
- Ef þið notið kasjúhnetusmjör blandið þið strax öllum hráefnum vel saman - engin matvinnsluvél.
- Þrýstið blöndunni í form sem er þakið smjörpappír, 18-20 sentímetra stórt, og frystið í 1 klukkustund.
- Setjið möndlur í matvinnsluvél og myljið rækilega. Blandið restinni af hráefnunum saman við í vélinni og myljið og myljið þar til karamellan er orðin silkimjúk. Smyrjið þessu yfir frosinn kasjúbotninn.
- Þetta er hægt að borða svona en hvað er Snickers án súkkulaðis? Bræðið 100-200 grömm af Paleo-súkkulaði og hellið yfir blönduna eða skerið í bita og þekið með súkkulaði.
- P.s. Þetta stendur sig ekkert alltof vel við stofuhita þannig að gúffið þessu í ykkur beint úr frystinum.