Ég er svo mikið jólabarn að ég get bara ómögulega hætt að baka fyrir jólin!

Einn morguninn vaknaði ég með mjög ákveðna hugmynd í hausnum og varð að fara að baka einn, tveir og bingó! Mig langaði að gera mjög haustlega og „spicy“ bollaköku með hlynsírópskremi og mig langaði að skreyta kökurnar með rauðu súkkulaði, sem ég bræði og set í jólaleg konfektform til að harðna.

Þannig að ég hófst handa við að baka hina fullkomnu jólabollaköku og þessar dúllur litu dagsins ljós.

Ég ákvað síðan að skreyta þær með frostþurrkuðum jarðarberjum og jarðarberja Pop Rocks, til að fá aðeins meira jólalúkk. Og auðvitað gat ég ekki stillt mig með gullglimmerið ofan á þessar því gullglimmerið gerir allar kökur fallegri!

Ég er rosalega ánægð með þessar jólalegu bollakökur því þær eru í einu orði sagt gómsætar!

En ekki bara trúa mér – bakið þær sjálf!


Bollakökurnar sem öskra á jólin
Hráefni
Bollakökur
Leiðbeiningar
Bollakökur
  1. Hitið ofninn í 180°C og takið til sirka 18 möffinsform.
  2. Hér byrjum við á að brúna smjörið en það er ofureinfalt. Setjið smjör í pott og bræðið það yfir miðlungshita. Passið að hræra stanslaust í smjörinu. Leyfið smjörinu að sjóða en þá myndast loftbólur og blandan gefur frá sér hljóð sem minna helst á brothljóð. Það gerist því vatnið er að gufa upp úr smjörinu. Leyfið því að malla í pottinum þangað til brothljóðin minnka og loftbólur hætta að myndast. Þá kemur froða á yfirborð smjörsins og litur þess breytist úr gulum í ljósbrúnan og loks dökkbrúnan. Þetta tekur um átta til tíu mínútur en passið ykkur - smjörið getur brunnið við á nokkrum sekúndum. Um leið og smjörið er orðið dökkbrúnt og lyktin af því minnir á karamellu þá er það tilbúið. Takið pottinn af hellunni og hellið smjörinu í stóra skál. Kælið í fimmtán mínútur.
  3. Blandið hveiti, kanil, múskati, lyftidufti og salti saman í lítilli skál.
  4. Blandið mjólk, vanilludropum, eggjum, sykri og púðursykri saman við brúnaða smjörið.
  5. Blandið þurrefnunum saman við smjörblönduna og hrærið þar til deigið er kekkjalaust.
  6. Deilið deiginu á milli möffinsformanna og bakið í 20 til 25 mínútur. Leyfið kökunum að kólna áður en kremið er sett á.
Krem
  1. Þeytið smjör og rjómaost saman í 5 til 6 mínútur.
  2. Blandið hlynsírópi og flórsykri saman við og smakkið til. Hrærið nokkrum sjávarsaltsflögum við.
  3. Skreytið kökurnar og njótið!

Umsagnir

Umsagnir