Stundum næ ég að skapa eitthvað sem bara virkar – 100%. Eitthvað sem smellur saman og allt verður betra. Þessi kaka er einmitt svoleiðis.

Ég held að það sem nái að lýsa því best hve geggjuð þessi kaka er, sjáist best í því að móðir mín, sem hefur bakað hverja dásemdina á fætur annarri í marga áratugi og kennt börnum borgarinnar heimilisfræði eins og enginn sé morgundagurinn, sagði að þessi kaka væri það besta sem ég hefði nokkurn tímann bakað. Vá! Þvílíkt hrós!

Ég hef bakað svo mikið alls konar síðan ég opnaði þessa síðu fyrir rúmum fimm árum síðan. Þið, kæru lesendur, fáið aðeins að lesa um það sem heppnast vel. Sumt nefnilega heppnast alls ekki. En svoleiðis slys gera mann bara sterkari bakara, því uppátækjasemi er svo stór hlutur af því að baka. Ég gæti hins vegar aldrei bent á eina köku, eitt gúmmulaði, einn sykursnúð og sagt að þetta væri það besta sem ég hefði gert. Það er því ágætt að mamma sjái um það.

Þessi kaka er eiginlega eins og ég hefði brætt saman Mars og Snickers og búið til köku úr þeim. Súkkulaðikaka með dásamlegri núggatfyllingu, skreytt með rjómaostakremi, nóg af karamellusósu og súkkulaði.

Athugið – þessi kaka er ekki fyrir viðkvæma!


Mín trylltasta kökusprengja
Hráefni
Kökubotnar
Núggatfylling
Karamellusósa
Súkkulaðibráð
Evaporated milk
Marshmallow Fluff
Leiðbeiningar
Kökubotnar
  1. Hitið ofninn í 175°C og smyrjið tvö hringlaga form, sirka 18-20 sentímetrar að stærð. Dustið þau með hveiti.
  2. Blandið hveiti, sykri, kakó, matarsóda, lyftidufti og salti saman í stórri skál. Blandið eggjum, AB mjólk, kaffi, olíu og vanilludropum saman í meðalstórri skál.
  3. Blandið öllu vel saman í um tvær mínútur, en þetta deig er frekar þunnt.
  4. Deilið á milli formanna og bakið í 30-35 mínútur. Ég setti aðeins meira í annað formið til að geta haft botnana þrjá, þannig að ég skar annan botninn í tvennt. Leyfið kökunum að kólna alveg áður en þær eru fylltar og kremið sett á.
Núggatfylling
  1. Bræðið smjörið í meðalstórum potti yfir meðalhita. Bætið sykri og evaporated milk saman við og hrærið stanslaust þar til blandan fer að sjóða. Lækkið hitann og látið malla í fimm mínútur, en hrærið stanslaust í blöndunni.
  2. Takið af hellunni og bætið marshmallow fluff, hnetusmjöri og vanilludropum saman við. Hrærið þar til blandan er silkimjúk.
  3. Leyfið blöndunni að kólna áður en kakan er skreytt.
Karamellusósa
  1. Byrjum á því að brúna smjör. Setjið smjör í pott og bræðið það yfir miðlungshita. Passið að hræra stanslaust í smjörinu. Leyfið smjörinu að sjóða en þá myndast loftbólur og blandan gefur frá sér hljóð sem minna helst á brothljóð. Það gerist því vatnið er að gufa upp úr smjörinu. Leyfið því að malla í pottinum þangað til brothljóðin minnka og loftbólur hætta að myndast. Þá kemur froða á yfirborð smjörsins og litur þess breytist úr gulum í ljósbrúnan og loks dökkbrúnan. Þetta tekur um átta til tíu mínútur en passið ykkur - smjörið getur brunnið við á nokkrum sekúndum. Um leið og smjörið er orðið dökkbrúnt og lyktin af því minnir á karamellu þá er það tilbúið. Takið pottinn af hellunni og hellið smjörinu í skál. Kælið alveg í ísskáp.
  2. Setjið sykur í pott og hitið yfir meðalhita. Hrærið af og til í sykrinum. Kögglar byrja að myndast og síðan verður vökvinn brúnn.
  3. Þegar allir kögglar hafa bráðnað er smjörinu bætt við og hrært vel.
  4. Lækkið hitann og bætið rjómanum við og hrærið. Látið malla í 1-3 mínútur á meðan þið hrærið. Takið sósuna af hellunni og bætið salti saman við. Látið kólna áður en kakan er skreytt.
Krem
  1. Þeytið smjörið í 3-4 mínútur og bætið síðan rjómaostinum saman við. Þeytið vel saman.
  2. Bætið karamellusósu og flórsykri saman við og þeytið vel. Hér er gott að smakka til.
Súkkulaðibráð
  1. Setjið súkkulaði og rjóma í skál og inn í örbylgjuofn í 30 sekúndur. Látið blönduna standa lítið eitt og hrærið síðan þar til allt er bráðnað.
  2. Þá er kakan sett saman. Á fyrsta botn er settur helmingur af núggatfyllingunni, smá af kreminu og örlítið driss af karamellusósu. Mér fannst líka tilvalið að setja smá karamellukurl á milli botnanna. Þetta er endurtekið með botn númer 2. Síðan er þriðji botninn settur ofan á og kakan hulin með kreminu. Loks er kakan skreytt með súkkulaðibráð, karamellusósu og jafnvel meira af smjörkremi.
Evaporated milk
  1. Athugið - oft er hægt að kaupa evaporated milk í asískum matvöruverslunum. Til að búa mjólkina til sjálf þá er 2 bollar af mjólk settir í pott yfir meðalhita. Hrærið stanslaust í blöndunni þar til hún byrjar að sjóða. Lækkið hitann í lægstu stillingu þegar byrjar að sjóða og leyfið blöndunni að malla þar til mjólkin hefur minnkað um 60%. Þá er mjólkin tilbúin.
Marshmallow Fluff
  1. Setjið bæði hráefni í skál og inn í örbylgjuofn í 30 sekúndur í senn þar til sykurpúðarnir hafi bráðnað. Hrærið vel þar til blandan er silkimjúk.

Umsagnir

Umsagnir

This entry was posted in Kökur.