Rjómaostur – we meet again. Ég hef eitthvað verið að spara rjómaostinn uppá síðkastið og biðst ég formlega afsökunar á því. Ég bara skil ekkert í mér því í mínum huga er rjómaostur eitt af undrum veraldar. Sérstaklega þegar maður blandar honum saman við flórsykur. Alveg sjúk blanda!
Alveg eins og þessar ostakökur. Þær eru sjúkar! Ég ákvað að gera nokkrar litlar ostakökur í staðinn fyrir eina stóra og kom það rosalega vel út. Það er líka geggjað að bjóða hverjum og einum gesti uppá sína eigin ostaköku ef maður er að halda matarboð.
Botninn er gerður úr Oreo-kexi og ég kýs að hafa kremið á en það er náttúrulega matsatriði. Í þessar notaði ég hnetusmjörs Oreo-kexkökur sem fengust í Hagkaupum á amerískum dögum. Og ef þessi Hagkaups-dúddar eru með eitthvað vit í kollinum bjóða þeir upp á þessar dásamlegu hnetusmjörskökur að eilífu. Amen.
|
|
- 12 Oreo-kexkökur
- 2msk brætt smjör
- 340g mjúkur rjómaostur
- 1/2bolli sykur
- 2 Nesbú-egg
- 1tsk vanilludropar
- 3msk rjómi
- 4 Snickers(skorin í litla bita)
- 1/2bolli dökkt súkkulaði
- 1/4bolli rjómi
- 1/2bolli púðursykur
- 1/4 bolli rjómi
- 2msk smjör
- 1/2tsk vanilludropar
- smá sjávarsalt
- Hitið ofninn í 160°C. Malið Oreo-kexið í matvinnsluvél og blandið saman við smjörið.
- Þrýstið blöndunni í möffinsform, sirka 12, og bakið botninn í 4 til 5 mínútur. Leyfið þessu að kólna aðeins.
- Hrærið rjómaostinn í 3 mínútur eða þar til hann er dúnmjúkur.
- Bætið eggjunum saman við, einu í einu, og því næst sykrinum, vanilludropunum og rjómanum.
- Hrærið Snickers-bitunum saman við varlega með sleif eða sleikju.
- Deilið blöndunni jafnt í möffinsformin og passið að hylja botninn alveg. Bakið í 20 til 22 mínútur.
- Ef þið notið álmöffinsform, sem ég mæli með, leyfið þá kökunum að kólna í hálftima í forminu.
- Hitið rjómann í örbylgjuofni eða í potti.
- Setjið súkkulaði í skál og hellið rjómanum yfir þegar hann byrjar að sjóða.
- Leyfið blöndunni að standa í nokkrar mínútur og hrærið svo vel saman.
- Skellið smá súkkulaðibráð í miðjuna á hverri ostaköku.
- Hitið púðursykur, rjóma og smjör á pönnu yfir meðalhita.
- Þegar allt er búið að blandast saman þarf sósan 3 til 4 mínútur til að þykkna.
- Þegar sósan er búin að þykkna skulið þið taka hana af hellunni og blanda vanilludropunum og saltinu saman við.
- Leyfið sósunni að kólna aðeins áður en þið drissið henni yfir ostakökurnar.