Elskulega Blaka mín átti tveggja ára afmæli þann 2. júní síðastliðinn. Tvö ár síðan ég opnaði þessa litlu síðu og byrjaði að dæla uppskriftum hingað inn.

Í dag eru heimsóknir á síðuna orðnar rúmlega tvö hundruð þúsund og uppskriftirnar orðnar 230. Svo hef ég líka haldið bökunarmaraþon og er að leggja lokahöndina á mína fyrstu bakstursbók. Og hvernig heldur maður uppá það? Jú, dásamleg súkkulaðikaka er eina rétta svarið!

Þessi súkkulaðikaka er algjört dúndur, þó ég segi sjálf frá. Ég nota olíu í stað smjörs í botnana, sem þýðir að kakan verður alveg extra mjúk og djúsí. Svo ákvað ég að búa til hindberjasíróp til að pensla botnana með og kom það svakalega vel út. Það kemur léttur berjakeimur sem er alls ekki of sterkur og eykur bara á mýkt kökunnar. Rúsínan í pylsuendanum er síðan sykurpúðakremið en í það notaði ég Marshmallow Fluff, sem ég kaupi yfirleitt í Hagkaup eða Nettó.

Svo ákvað ég að leika mér aðeins með súkkulaði í skreytingum, breyta aðeins til. Mér fannst kakan vægast sagt hræðilega ljót þegar ég var búin að skreyta og var að hugsa um að byrja alveg uppá nýtt. En síðan vandist ég henni og í dag finnst mér hún bara nokkuð snotur. Það er líka ekki útlitið sem skiptir máli – það er bragðið!

Þannig að ég mæli með því að þið leyfið ímyndunaraflinu að leika lausum hala þegar þið skreytið þessa. Nú, eða bara sleppið því að skreyta hana, skellið kreminu á og gúffið í ykkur. Ég get lofað ykkur því að þessi verður ekki lengi að klárast en ef þið viljið geyma hana þá helst hún dúnmjúk í ísskápnum í um viku. Tilvalið nart á milli mála.

Ef þið viljið gera vel við ykkur í dag, eða alla aðra daga, er þessi súkkulaðikaka algjört möst!


Súkkuklaðikaka með sykurpúðakremi og hindberjasírópi
Hráefni
Súkkulaðikaka
Hindberjasíróp
Sykurpúðakrem
Leiðbeiningar
Súkkulaðikaka
  1. Hitið ofninn í 180°C og takið til tvö hringlaga form, sirka 18 sentímetra stór. Setjið smjörpappír í botninn og smyrjið hliðarnar með smjöri.
  2. Blandið þurrefnunum saman í skál og setjið til hliðar.
  3. Blandið grískri jógúrt, olíu, vanilludropum og eggjum saman í annarri skál.
  4. Blandið jógúrtblöndunni saman við þurrefnin þar til blandan er kekkjalaus. Ég nota bara písk eða sleif við þetta en það er auðvitað hægt að nota þeytara.
  5. Blandið vatninu varlega saman við þar til allt er vel blandað saman en deigið á að vera í þynnra lagi.
  6. Deilið deiginu á milli formanna og bakið í um það bil hálftíma. Leyfið kökunum að kólna í að minnsta kosti 10 mínútur áður en þið fjarlægið hringinn af forminu.
Hindberjasíróp
  1. Búið til sírópið á meðan kakan er að kólna. Setjið sykur og vatn í pott og leyfið suðu að koma upp við meðalhita.
  2. Setjið hindberjin í pottinn og leyfið þessu að malla í 5-7 mínútur og hrærið í blöndunni við og við.
  3. Takið pottinn af hellunni og hellið blöndunni í gegnum sigti til að skilja öll fræin frá. Leyfið blöndunni að kólna í ísskápnum.
Sykurpúðarkrem
  1. Þeytið smjörið í 4-5 mínútur og blandið síðan flórsykri saman við.
  2. Blandið Marshmallow Fluff saman við, einni matskeið í einu, þar til allt er vel blandað saman.
  3. Loks hrærið þið vanilludropum saman við.
  4. Setjið annan kökubotninn á disk (eða skerið hvorn botninn í tvennt) og penslið hann með hindberjasírópinu. Leyfið kökunni að draga í sig sírópið og penslið síðan aftur.
  5. Skellið gommu af kremi á botninn og dreifið úr.
  6. Snúið hinum kökubotninum á hvolf og penslið hann með sírópinu, líkt og hinn botninn.
  7. Snúið botninum við og skellið ofan á kremið. Skreytið síðan kökuna með afgangskreminu.

Umsagnir

Umsagnir