Ég er svo mikill aðdáandi brúns smjörs að það er eiginlega vandræðalegt. Mér finnst svo spennandi að brúna smjör og verð pínu æst þegar ég sé það breyta um lit og karamellu- og hnetulyktin fyllir vitin.

Því eru þessar kökur svo mikill elegans. Þær eru milljón manns. Þær eru fjólublátt ljós við barinn.

Kökurnar eru unaðslegar einar og sér en með góðum kaffibolla lyftast þær upp á annað level. Og eins og flestar mínar uppskriftir er framkvæmdin leikur einn. Auðvitað er smá dútl að brúna smjörið en þið sjáið ekki eftir því – trúið mér! Og þið megið alls, alls, alls ekki gleyma sjávarsaltinu. Það er punkturinn yfir smjörslegna i-ið.


Brúnt smjör og pekanhnetur
Leiðbeiningar
  1. Hér byrjum við á að brúna smjörið en það er ofureinfalt. Setjið smjör í pott og bræðið það yfir miðlungshita. Passið að hræra stanslaust í smjörinu. Leyfið smjörinu að sjóða en þá myndast loftbólur og blandan gefur frá sér hljóð sem minna helst á brothljóð. Það gerist því vatnið er að gufa upp úr smjörinu. Leyfið því að malla í pottinum þangað til brothljóðin minnka og loftbólur hætta að myndast. Þá kemur froða á yfirborð smjörsins og litur þess breytist úr gulum í ljósbrúnan og loks dökkbrúnan. Þetta tekur um átta til tíu mínútur en passið ykkur - smjörið getur brunnið við á nokkrum sekúndum. Um leið og smjörið er orðið dökkbrúnt og lyktin af því minnir á karamellu þá er það tilbúið. Takið pottinn af hellunni og hellið smjörinu í skál. Kælið í fimmtán mínútur.
  2. Bætið púðursykri, eggi og vanilludropum í skálina með brúna smjörinu og hrærið vel saman.
  3. Blandið hveiti, matarsóda og salti saman í annarri skál og blandið því síðan við smjörblönduna.
  4. Blandið pekanhnetunum saman við með sleif. Nú gæti deigið verið svolítið fitugt. Gott er að kæla það í ísskáp yfir nótt en það er hægt að redda sér með því að skella því í frysti í hálftíma eða klukkutíma.
  5. Hitið ofninn í 180°C. Klæðið bökunarplötur með smjörpappír. Búið til litlar kúlur úr deiginu og setjið á plöturnar.
  6. Skreytið kökurnar með smá sjávarsalti og bakið í átta til tíu mínútur eða þangað til brúnir þeirra eru orðnar brúnaðar. Leyfið kökunum að kólna eða hámið þær í ykkur strax.

Umsagnir

Umsagnir