Rosalegt kökupinnaæði reið yfir landann og heiminn allan fyrir nokkrum misserum en ég hef enn þá svolítið gaman að þessari kökuleið.

Ég lét hugann reika því mig langaði að bjóða upp á einhvers konar kökupinna í þessum mánuði og datt niður á alveg æðislega hugmynd þó ég segi sjálf frá.

Ég ákvað að gera margar, litlar afmæliskökur og það tókst alveg stórkostlega vel. Ég hef aldrei verið þekkt fyrir að vera mjög góð í kökuskreytingum en ég er rosalega ánægð með þessa pinna. Ef ég get gert þetta þá getið þið það léttilega.

Ég notaði bollakökurnar og kremið úr síðustu uppskrift í kökupinnana enda fæ ég ekki nóg af þeirri uppskrift! Gangi ykkur vel og munið að leyfa ímyndunaraflinu að leika lausum hala!


Litlar og sætar afmæliskökur
Hráefni
Leiðbeiningar
  1. Fyrst verðið þið að baka kökuna. Uppskriftin er fyrir bollakökur en bakið hana bara í einu formi.
  2. Leyfið kökunni alveg að kólna og myljið hana síðan smátt niður - hér er fínt að nota matvinnsluvél.
  3. Búið til kremið og blandið því smátt og smátt við kökumylsnuna. Þið viljið að blandan líkist helst leir sem auðvelt er að móta - ekki of blaut og ekki of þurr. Gott er að kæla blönduna í klukkutíma áður en hafist er handa.
  4. Fletjið deigið út og hafið það í þykkara lagi. Skerið út hringi en passið að hafa þá ekki alltof stóra - þá ræður kökupinninn og súkkulaðið ekki við þyngslin.
  5. Bræðið 50 g af dökka súkkulaðinu og dýfið endunum á kökupinnunum í það. Setjið síðan kökupinnana í miðjuna á deighringjunum en passið að fara ekki alla leið í gegn. Setjið í frysti í klukkutíma.
  6. Bræðið restina af dökka súkkulaðinu og dýfið kökunum í það. Látið allt afgangssúkkulaði renna af kökunum og komið þeim síðan fyrir þannig að þær standi (hér er gott að nota frauðplast). Leyfið súkkulaðinu að storkna.
  7. Bræðið hvíta súkkulaðið og setjið það í sprautu eða poka og klippið eitt hornið af. Sprautið súkkulaðinu yfir það dökka eins og um krem væri að ræða (sjá myndir). Stillið kökupinnunum aftur á frauðplastið og leyfið hvíta súkkulaðinu að storkna alveg.
  8. Bræðið það sem ég kalla annað súkkulaði - ég notaði hnetusmjörssúkkulaði til að fá annan lit. Setjið litla doppu af súkkulaði í miðjuna á hverri köku og þrýstið kertinu ofan á.
  9. Síðan leikið ykkur bara með restina en til að festa skrautið á kökurnar notaði ég hnetusmjörssúkkulaðið.

Umsagnir

Umsagnir