Ein af mínum bestu æskuminningum er þegar faðir minn tók sig til, um það bil einu sinni á tveggja ára fresti, og bjó til karamellur. Þetta var mikil viðhafnarstund og fylgdust við systurnar með karamellugerðinni með aðdáun. Pabbi þurfti nefnilega engan bévítans hitamæli. Hann notaði bara innsæið og oftar en ekki urðu karamellurnar fallega ljósbrúnar og fullkomnar.

Þessi uppskrift er ekki að karamellum eins og pabbi gerði en þær eiga það sameiginlegt með þeim að það þarf ekki að nota hitamæli sem er mikill plús. Þetta eru heldur ekki karamellur sem við Íslendingar eigum að venjast heldur „fudge“ sem eru mjúkar konfektkaramellur. Þær eru mýkri en þessar klassískur karamellur og aðeins grófari. En vá, hvað þær eru góðar!

Ég mæli líka hundrað prósent með þessum karamellum ef ykkur vantar litla tækifærisgjöf fyrir þá sem eiga allt. Þær eru nefnilega sjúklega sætar þegar búið er að vefja þeim í sellófan og koma þeim fyrir í sætum, litlum poka. Ég vil benda ykkur á að kíkja í Tiger eða Söstrene Grene því þar fást rosalega sætir nammipokar og ekki skemmir fyrir að þeir eru mjög ódýrir.

Og áður en ég læt ykkur fá uppskriftina langar mig líka að benda á það að þessi uppskrift er alls ekki heilög og leikur einn að leika sér með hráefnin. Það er til dæmis vel hægt að skipta hnetusmjörinu út fyrir meira af hvítu súkkulaði. Leyfið bara huganum að reika því tilraunir eru alltaf af því góða. Annað hvort gerir maður mistök og lærir dýrmæta lexíu eða maður rambar á einhverja snilld.


Fáránlega einfaldar karamellur
Leiðbeiningar
  1. Setjið bökunarpappír í kassalaga form, 20 x 20 sentímetra. Leyfið pappírnum að koma upp á hliðunum og smyrjið hliðarnar sem pappírinn hylur ekki.
  2. Takið til tvo potta. Deilið mjólkinni jafnt á milli pottanna.
  3. Í annan pottinn fer dökka súkkulaðið, Mars, vanilludroparnir og helmingurinn af matarsódanum.
  4. Í hinn pottinn fer hvíta súkkulaðið, hinn helmingurinn af matarsódanum og hnetusmjörið.
  5. Hitið undir báðum pottum og stillið á meðalhita. Hrærið við og við í báðum blöndunum þar til allt er bráðnað.
  6. Setjið dökku súkkulaðiblönduna í botninn á forminu og dreifið úr henni.
  7. Setjið hvít súkkulaðiblönduna ofan á dökka súkkuklaðið og dreifið úr henni. Auðvitað má blanda þessu tvennu saman með gaffli eða spjóti.
  8. Leyfið blöndunni að standa við stofuhita í um tuttugu mínútur áður en þið setjið hana inn í ísskáp í þrjár klukkustundir.
  9. Skerið í litla karamellubita og njótið þegar þessi dásemd bráðnar í munninum ykkar. Þið ættuð að fá sirka 36 karamellur úr þessu.

Umsagnir

Umsagnir