Þó það séu ekki jól má alveg hlaða í nokkrar smákökur, en ekki hvaða smákökur sem er. Heldur þessar smákökur!

Þessar smákökur eru svo góðar að ég trúði því varla að mínar tvær, venjulegu, mennsku hendur hefðu búið þær til. Og nei, ég er ekki að ýkja!

Þessar smákökur hafa allt. Djúsí súkkulaðibragð, geggjaða, bráðnaða karamellu og hnetumulning sem gerir það að verkum að þær eru bæði mjúkar og stökkar í sama bitanum. Þetta krakkar mínir er hin fullkomna smákaka og verður bökuð mjög oft á mínu heimili héðan í frá!

Uppskriftin er auðvitað mjög einföld og hægt að leika sér með hnetumulning eins og maður vill. Ég notaði kasjúhnetur, pistasíuhnetur og möndlur en þið bara notið þær hnetur sem ykkur finnst bestar. Þó verð ég að segja að pistasíuhnetur og karamella passa afar vel saman þannig að ég persónulega myndi ekki sleppa þeim. Skemmtið ykkur í eldhúsinu!


Rosalegar súkkulaðikökur með karamellu í miðjunni
Hráefni
Leiðbeiningar
  1. Byrjum á að rista hneturnar en það er ofureinfalt. Setjið þær einfaldlega á bökunarpappírsklædda ofnplötu og ristið við 180°C í um það bil 10 mínútur. Fylgist samt vel með þeim því þær eru fljótar að brenna.
  2. Svo eru það kökurnar. Blandið hveiti, kakói og matarsóda vel saman í skál og setjið til hliðar.
  3. Í annarri skál blandið þið saman smjöri, púðursykri og sykri. Bætið vanilludropunum út í og hrærið vel og síðan egginu.
  4. Setjið deigið inn í ísskáp í um klukkustund svo það sé auðveldara að vinna með það.
  5. Hitið ofninn í 180°C og takið til ofnskúffur með smjörpappír.
  6. Skerið karamellurnar í helminga og blandið hnetum saman við 1 msk af sykri á disk.
  7. Takið bita af deiginu og búið til flatan hring með lófunum. Setjið karamellubita í miðjuna og búið til kúlu úr deiginu utan um karamelluna. Veltið öðrum helmingnum af kúlunni upp úr hnetublöndunni og raðið á ofnskúffur. Stráið síðan smá sjávarsalti yfir.
  8. Bakið kökurnar í 7-10 mínútur. Leyfið þeim að kólna alveg áður en þið takið þær af skúffunum svo karamellan nái að storkna. Ég veit að það er erfitt að bíða en ef þið gerið það ekki detta kökurnar í sundur.

Umsagnir

Umsagnir