Ég hef örugglega sagt þetta áður, en ljóska er eiginlega alveg eins og brúnka nema aðalhetjan er hvítt súkkulaði. Ég get hreinlega ekki gert uppá milli hvort mér finnst betra, brúnkan eða ljóskan, þannig að ég ætla ekki að gera það.

En ég verð að segja að þessi ljóska er náttúrulega gjörsamlega geggjuð. Fullt af hvítu súkkulaði og ristaðar kókosflögur sem gera svo ofboðslega mikið fyrir þennan einfalda eftirrétt. Raunar veit ég ekki af hverju ég nota kókos svona lítið í bakstur. Mér finnst hann alveg svakalega góður, hvort sem það er gamla, góða kókosmjöli ofan á skúffukökuna eða heimagert Bounty. Jebb, ég sagði heimagert Bounty! Von er á uppskrift að því í bókinni minni sem kemur út innan skamms, þannig að þið getið beðið spennt!

En aftur að ljóskunni minni yndislegu. Þessi uppskrift er mjög einföld og snýst bara um að henda nokkrum hráefnum í skál, hræra smá, skella inn í ofn og bara bíða. Svona fyrir utan að það þarf að rista kókosflögurnar fyrst inni í ofninum, en það er minna en ekkert mál.

Sjá einnig: Saltkaramella og brúnka sem er erfitt að standast

Þannig að ég mæli innilega með þessari elsku þegar að gesti ber að garði.

Ljóska bara getur ekki klikkað.


Ljóska með hvítu súkkulaði og kókos
Hráefni
Leiðbeiningar
  1. Hitið ofninn í 175°C og takið til ofnplötu. Klæðið hana með smjörpappír. Dreifið kókosflögunum á hana og ristið í 5-7 mínútur. Gott er að hræra aðeins til í flögunum eftir sirka 3 mínútur og fylgjast vel með svo flögurnar brenni ekki. Setjið til hliðar og leyfið að kólna.
  2. Blandið smjöri, púðursykri og vanilludropum saman í skál. Bætið egginu saman við og þeytið.
  3. Blandið hveiti og salti saman við þar til allt er blandað saman, en passið að hræra ekki of lengi. Ég handhræri alltaf í brúnku og ljósku svo deigið verði extra djúsí.
  4. Blandið súkkulaði og kókosflögum saman við deigið með sleif eða sleikju.
  5. Takið til form sem er sirka 18-20 sentímetra stórt. Klæðið botninn með smjörpappír og smyrjið hliðarnar með smjöri eða olíu.
  6. Skellið deiginu í formið og bakið í 22 til 26 mínútur. Leyfið kökunni að kólna áður en þið skerið hana í litla bita. Nammi!

Umsagnir

Umsagnir