Ég fagnaði afmæli mínu 9. september og bauð að sjálfsögðu í kaffi enda veit ég fátt skemmtilegra en að baka fullt af sortum ofan í fáa gesti og eiga svo afganga í viku. Ekkert sérstaklega gott plan fyrir meðgöngukílóin sem eru eitthvað þrjósk við að fara en maður lifur nú bara einu sinni – þarf maður ekki að hafa smá gaman að því?

Það var ein kaka sem stal algjörlega senunni í afmælinu og það var kaka sem ég var að prófa að gera í fyrsta sinn. Hnetusmjörsostakaka. Sem þarf ekki einu sinni að baka. Ég hef gert milljón ostakökur og er dugleg að prófa mig áfram með alls kyns hráefni en aldrei hafði ég gert hnetusmjörsostaköku. Í sannleika sagt hélt ég að það yrði bara of mikið af því góða. Sem betur fer hafði ég rangt fyrir mér.

Uppskriftin lætur ekki mikið fyrir sér fara og er ofureinföld en kakan sjálf er himnesk. Hún er sæt, hún er sölt, hún er silkimjúk en líka dásamlega stökk. Ég nenni ekki að skrifa meira – ég er farin inní ísskáp að klára leifarnar sem hafa öskrað á mig síðan á miðvikudag!


Besta ostakaka sem ég hef bakað
Hráefni
Botn
Ostakaka
Leiðbeiningar
Botn
  1. Myljið kexkökurnar í matvinnsluvél eða með handafli og blandið þeim saman við brædda smjörið.
  2. Þrýstið þessu í botn á fati að eigin vali. Það þarf alls ekki að baka þennan botn en mér finnst gott að skella honum inn í ofn á 180°C í 8 til 10 mínútur. Ef þið viljið ekki baka þá er hægt að kæla hann bara.
Ostakaka
  1. Blandið saman rjómaosti og hnetusmjöri þar til blandan er silkimjúk.
  2. Því næst er vanilludropum og flórsykri blandað saman við.
  3. Í annarri skál er rjóminn þeyttur og honum síðan varlega blandað saman við hnetusmjörsblönduna.
  4. Herlegheitin eru sett ofan á kexbotninn og inn í ísskáp í að minnsta kosti fjóra klukkutíma - helst yfir nótt. Svo er bara að skreyta með hnetum, eða því sem þið viljið, og gúffa í ykkur.

Umsagnir

Umsagnir